Fangelsi fyrir fjársvik og árásir

Gísli Þór Gunnarsson í Héraðsdómi Reykjavíkur þegar Stokkseyrarmálið var tekið …
Gísli Þór Gunnarsson í Héraðsdómi Reykjavíkur þegar Stokkseyrarmálið var tekið fyrir.

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt 22 ára karlmann, Gísla Þór Gunnarsson, í tveggja ára fangelsi fyrir fjársvik, ránstilraun og tvær sérstaklega hættulegar líkamsárásir. Þá ber honum að greiða fórnarlömbum sínum samtals 2,5 milljón króna í bætur. Samverkafólki Gísla var ekki gerð refsing í málinu.

Í málinu voru mennirnir tveir ákærðir fyrir að hafa ráðist á 38 ára gamlan karlmann og skorið hann á háls. Þeir voru einnig ákærðir, ásamt ungri konu, fyrir fjársvik. Í ákæru segir að þau hafi sett auglýsingu í dagblað um kynlífsþjónustu og hitt karlmann sem svaraði auglýsingunni. Í stað þess að veita þá þjónustu sem auglýst var stal konan fjörutíu þúsund krónum af vændiskaupandanum. Mennirnir hafi í kjölfarið ráðist á vændiskaupandann og ætlað að ræna hann.

Öll neituðu þau sök hvað fjársvikin varðaði en Gísli Þór játaði sök að öðru leyti. Héraðsdómur sakfelldi öll fyrir fjársvik og sagði það ekki breyta neinu máli þótt fórnarlambið kunni með háttsemi sinni að hafa unnið sér til refsingar, þ.e. þar sem hann hugðist greiða fyrir kynlífsþjónustu.

Þá sýknaði héraðsdómur hinn karlmanninn af ákæru um að hafa ætlað að ræna manninn og segir í niðurstöðu dómsins að það teljist ósannað.

Gísli Þór var svo jafnframt sakfelldur fyrir að hafa veist að karlmanni á heimili hans 2. júlí 2013, með hnífi og veitt honum 10 cm langt skurðsár á hægri framhandlegg fyrir ofan úlnlið.

Óttaðist annan ákærðu

Hvað varðar refsingu ungu konunnar fyrir fjársvikin segir í dómi héraðsdóms: „Ákærða hefur borið að tilviljun hafi ráðið því að hún kom að hitta meðákærðu þennan dag og hafi hún ekki þorað öðru en að fallast á að taka þátt í fjársvikabroti þeirra. Kom jafnframt fram hjá ákærðu að hún teldi sig hafa ástæðu til að óttast ákærða [X]. Hefur framburði hennar um þetta ekki verið hnekkt.“ Var refsingu hennar því frestað skilorðsbundið.

Refsing hins mannsins var dæmd sem hegningarauki við síðasta refsidóm hans, en maðurinn á að baki töluverðan sakarferil. Mat dómurinn það sem svo að brotið í máli þessu hefði ekki leitt til þyngri refsingar en manninum var gert að sæta með fyrrgreindum dómi. Var honum því ekki gerð sérstök refsing í máli þessu.

Sem áður segir var Gísli Þór dæmdur í tveggja ára fangelsi. Bætist sú refsing við tveggja og hálfs árs dóm sem hann hlaut í febrúar síðastliðnum fyrir aðild sína að Stokkseyrarmálinu svonefnda.

Þá var fólkinu gert að greiða málsvarnarlaun verjenda sinna. Unga konan þarf að greiða 690.250 krónur, hinn maðurinn þarf að greiða verjanda sínum sömu upphæð eins og Gísli Þór en honum var einnig gert að greiða samtals 636.913 krónur til réttargæslumanna fórnarlambanna í málinu og 115.678 krónur í annan sakarkostnað. Allt í allt þarf Gísli Þór því að greiða 3.942.841 krónu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert