Gert var að ljótu sári snæuglu

Dýralæknir hjá Dýraspítalanum í Víðidal gerði í dag að ljótu sári á væng snæuglu sem komið var með á spítalann. Starfsmenn fiskeldis á Tálknafirði fundu snæugluna flækta í neti og komu starfsmenn Náttúrustofu Vestfjarða með hana til Reykjavíkur í kjölfarið. Uglan var þokkalega á sig komin á sér von.

Kristinn Haukur Skarphéðinsson hjá Náttúrufræðistofnun Íslands kom með snæugluna á Dýraspítalann í Víðidal í dag þar sem Katrín Harðardóttir dýralæknir gerði að sári hennar. Katrín sagði í samtali við mbl.is að sárið hafi verið ansi ljótt en ákveðið hafi verið að hún verði geymd hjá Náttúrufræðistofnun Íslands til frekari aðhlynningar.

Þá sagði Kristinn Haukur í samtali við mbl.is að snæuglan hafi þokkalega á sig komin og frekar gæf, þannig hafi hún verið pollróleg á meðan búið var um sárið á vængnum. Hún sé nú geymd í aðstöðu hjá stofnuninni þar sem skipta þarf ansi oft um sárabindið. Það komi svo í ljós á næstu dögum og vikum hvernig hún braggast. Hún eigi sér alla vega góða lífsvon.

Hér má sjá fleiri myndir af snæuglunni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert