Páll Óskar leitar að Gutta

„Hefur þú séð köttinn minn? Hann heitir Gutti, ég elska hann mjög mikið og núna er hann týndur.“ Þannig hefst stöðufærsla Páls Óskars Hjálmtýssonar, tónlistarmanns með meiru, á Facebook-síðu hans í kvöld. Gutti hvarf frá heimili sínu að Sörlaskjóli í vesturbæ Reykjavíkur fyrir meira en viku síðan og er nú sárt saknað.

„Gutti er næstum 12 ára gamall grár fress með hvíta sokka, bringu og trýni. Hann er geldur, bólusettur, ormahreinsaður, örmerktur og líka með tattú merkingu í eyra. Vinsamlegast athugið bílskúra, geymslur, þvottahús og útikofa hjá ykkur ef hann skyldi hafa lokast þar inni. Hann má ekki borða hvað sem er, vegna sýkinga í þvagfærum sem koma upp ef hann er ekki á sínu sérstaka þurrfæði. Gutti er farinn að róast mikið með aldrinum, hann sefur næstum því 18 klst á sólarhring,“ segir Páll Óskar.

Biður hann fólk vinsamlegast að hafa samband við Kattholt í síma 567-2909 eða Ingu aðstoðarkonu sína í síma 898-9116 ef það finnur Gutta eða hefur upplýsingar um hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert