Vorið kemur með signu grásleppunni

Starfsmenn Fiskikóngsins voru ánægðir með sendingu dagsins. Kristján er fyrir miðju.

„Það er bara þannig að þegar fólk sér signu grásleppuna í verslunum veit það að vorið er komið,“ segir Kristján Berg, framkvæmdarstjóri Fiskikóngsins. „Við fengum fyrstu sendinguna í dag en það hefur aldrei áður hist á að ég fái hana á seinasta vetrardegi. Yfirleitt er hún að koma inn einni til tveimur vikum seinna.“

Lengi vel hefur sigin grásleppa verið kölluð vorboði og varð því mikil gleði þegar fyrsta sendingin af grásleppunni kom í verslun Fiskikóngsins í dag, á síðasta degi vetrar.

Samkvæmt Kristjáni eru janúar og febrúar hrognatímabil en svo komi rauðmaginn og síðan loksins signa grásleppan. „Það er ekki hægt að láta grásleppuna síga á sumrin því þá kemur flugan í hana. Það er bara rétt á vorin sem hún er látin síga. Um leið og hún er tilbúin er hún send í verslanir.“

Aðspurður segir Kristján að lyktin af signu grásleppunni sé alls ekki slæm. „Þetta er ekki eins og skötulykt eða eitthvað álíka, ég held að það sé til dæmis sterkari lykt af hangikjöti en signu grásleppunni. Hún gefur bara „sexí“ ilm,“ segir Kristján sem segir jafnframt að helstu aðdáendur signu grásleppunnar sé fólk í eldri kantinum. „Ég hef núna verið að selja fisk í tæpan aldarfjórðung og það er alltaf jafn gaman að sjá fólkið sem er uppalið við signu grásleppuna koma í búðina. Fólkið bara ljómar þegar það sér hana.“

Samkvæmt Kristjáni er unga fólkið ekki eins spennt fyrir signu grásleppunni og segir hann jafnframt að hún sé hratt og örugglega að hverfa úr fiskbúðum landsins. „Sjómennirnir sjá ekki hag í því að taka grásleppuna til og láta hana síga. Einbeita þeir sér frekar að grásleppuhrognunum sem eru mjög verðmæt og eru seld til Japan á mjög háu verði. Fyrir fimm árum seldi ég þrjú þúsund bönd af grásleppu en í ár verða þau líklegast ekki fleiri en 1500. Það er bara hratt og örugglega verið að hætta að framleiða hana.“

Bætir Kristján við að birgðir búðarinnar af siginni grásleppu endist núna í um fimm vikur á meðan fyrir örfáum árum entust þær í fleiri mánuði.

Grásleppan mun hverfa úr búðunum

Segir hann einnig að á meðan signa grásleppan er vinsæl hjá eldra fólki er unga fólkið frekar í marineruðum fisk. „Einnig er núna grilltímabilið að byrja. Fólk sækir þá í fallegar fisksteikur til að henda á grillið eða pönnuna. Við erum farnir að skera fiskinn í fallegar steikur enda þarf fiskurinn að líta vel út svo fólki langi til að borða hann.“

Kristján áætlar að á næstu 5 til 10 árum hverfi signa grásleppan endanlega úr fiskbúðum landsins. „Mér finnst þetta gífurlega leiðinleg þróun, ég vil halda í gamlar hefðir eins mikið og hægt er. Eldra fólkið er samt alveg brjálað í þetta, það einfaldlega hamstrar grásleppuna og finnst okkur það alveg dásamlega gaman.“

Sigin grásleppa
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert