Útlagi dæmdur fyrir hylmingu

Skjáskot af vefsvæði norsku vélhjólasamtakanna Outlaws, en talið er að …
Skjáskot af vefsvæði norsku vélhjólasamtakanna Outlaws, en talið er að íslensku samtökin séu sprottin þaðan. Mynd/outlawsmc.no

Héraðsdómur Suðurlands hefur dæmt fertugan karlmann í þrjátíu daga skilorðsbundið fangelsi fyrir hylmingu. Um var að ræða hegningarauka við fyrri dóm en maðurinn hefur hlotið dóma fyrir fíkniefnamisferli og vopnalagabrot. Á samfélagsvefnum Facebook kennir hann sig við samtökin Útlaga (e. Outlaws MC) sem skilgreind hafa verið sem glæpasamtök.

Í málinu var maðurinn ákærður fyrir að hafa í október 2013 haft í vörslu sinni Samsung Galaxy S3 farsíma sem stolið var þann 28. september 2013, en maðurinn tók við símanum frá ókunnum þriðja manni og hélt þannig umræddum síma ólöglega frá eiganda sínum. Í ákæru segir að manninum hafi verið ljóst eða mátti vera ljóst að um þýfi var að ræða.

Maðurinn neitaði fyrst sök fyrir dóminum en breytti afstöðu sinni í næsta þinghaldi og viðurkenndi skýlaust að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem fram kom í ákæru.

Í niðurstöðu dómsins segir að hæfileg refsing teljist 30 daga fangelsi en að virtum atvikum máls og að teknu tilliti til skýlausrar játningar þyki rétt að fresta fullnustu refsingarinnar.

Þá var manninum gert að greiða verjanda sínum 180 þúsund krónur í málsvarnarlaun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert