Best ef sumar og vetur frjósa saman

Sveitarómantík í Árbæjarsafni.
Sveitarómantík í Árbæjarsafni. Ómar Óskarsson

Áður fyrr voru bakaðar sérstakar sumardagskökur í tilefni sumardagsins fyrsta sem var haldinn hátíðlegur á hverjum bæ fyrir sig, m.a. með húslestri. Sendimenn dönsku kirkjunnar bönnuðu á átjándu öld að Íslendingar messuðu á fimmtudegi í tilefni af komu sumars. Fyrir um hundrað árum hét sumardagurinn fyrsti barnadagur og þá voru m.a. barnaskrúðgöngur í höfuðstaðnum.

„Það sem er merkilegast við sumardaginn fyrsta er að við erum eina þjóðin í heiminum sem á slíkan dag. Fyrir vikið þykir mér sérstaklega vænt um hann,“ segir Árni Björnsson þjóðháttarfræðingur um daginn í dag sem markar upphaf sumars og Íslendingar halda veglega upp á. „Þessi dagur er til frá því á tíundu öld, en það stafar af því að þegar landnámsmenn komu hingað þá voru engar hefðir til hér um tímatal, svo þeir urðu að búa til sitt eigið sameiginlega tímatal. Kirkjan kemur ekki fyrr en hundrað árum síðar með rómverska tímatalið sitt. Þorsteinn surtur er nefndur sérstaklega sem tímatalsfræðingur þessara fyrstu kynslóða sem byggðu landið. Í því tímatali er árinu skipt í fimmtíu og tvær vikur og tvö misseri, sumar og vetur,“ segir Árni og bætir við að það líti út fyrir að sumardagurinn fyrsti hafi í reynd verið nýársdagur. „Áður fyrr var aldur manna talinn í vetrum en ekki árum, og því var upphaf nýs aldursárs í byrjun sumars.“

Mörgum finnst of kalt

Sumarið byrjar alltaf á fimmtudegi en veturinn á laugardegi, sem leiddi af sér að seinasta vika vetrar endaði á föstudegi. „Fyrir vikið var tæp vika milli loka seinustu vetrarviku og fyrsta sumardags, en sú vika hét sumarmál. Á sama hátt voru tveir dagar á milli loka sumars og upphafs vetrar, en þeir hétu veturnætur.“ Árni segir að vissulega hafi borið á því í seinni tíð að fólk hafi skammast út í það að sumardagurinn fyrsti sé allt of snemma á dagatalinu, því þá sé ekki orðið nógu hlýtt. „En ef hann væri seinna þá væri fyrsti vetrardagur alltof seint, því munurinn þurfti að vera sex mánuðir. En það getur komið sér vel að fyrsti sumardagur er snemma, því margir vilja láta sumar og vetur frjósa saman, það á að vita á sólríkt og gjöfult sumar. Fólk fór hér áður fyrr jafnvel á fjöll til að finna einhvers staðar frost.“

Ekki var verið að spreða pappír, hvað þá skinni

Árni segir greinilegt á fornum heimildum að sumardagurinn fyrsti hafi verið mikill hátíðisdagur. „Það er til dæmis miklu fyrr getið um sumargjafir en jólagjafir, til eru dæmi um sumargjafir frá sextándu öld en ekki um jólagjafir fyrr en á þeirri nítjándu. Íslendingar voru með sérstaka messu á sumardaginn fyrsta, en þegar sendimenn dönsku kirkjunnar komust að því á átjándu öld að hér væri verið að messa á fimmtudegi, þá var það bannað, það var ekki í samræmi við dönsku kirkjuskipunina. Það mátti ekkert vera öðruvísi. En Íslendingar héldu áfram að gera sér dagamun og lásu húslestur á sumardaginn fyrsta í stað kirkjugöngu. Einnig voru bakaðar sérstakar sumardagskökur og haldið upp á daginn með einum eða öðrum hætti,“ segir Árni og bætir við að lítið hafi verið skrifað um slíka hluti, enda vildu menn ekki spreða pappír og allra síst skinni í skrif um svo hversdagsleg mál.

Árni segir að hátíðahöld eins og við könnumst við í dag, þar sem fjöldi fólks kemur saman og heldur upp á sumardaginn fyrsta, hafi ekki komið til fyrr en með tilkomu þéttbýlis. „Fram að því voru hátíðahöld á hverjum bæ fyrir sig. Fyrir um það bil hundrað árum var tekið upp á því að kalla þennan dag barnadag, sem barnavinafélagið Sumargjöf stóð fyrir og hélt í Reykjavík. Þetta voru talsvert miklar samkomur sem krakkar tóku þátt í, skrúðgöngur barna og fleira. Nú hafa skátarnir tekið við því hlutverki.“ Árni segist ekki lengur gera sér dagamun á sumardaginn fyrsta, en honum sé mjög hlýtt til dagsins og vilji fyrir engan mun að hann verði aflagður. „Mér finnst svo gaman að þessi dagur skuli vera til hér á Íslandi, sá eini í heiminum, þetta er svo einstakt, og mér er alveg sama þó fólk kalli það þjóðrembu,“ segir Árni og bætir við að í næstu útgáfu af Sögu daganna mundi hann bæta því við um sumardaginn fyrsta að þann dag árið 2014 hefði hinn sanni Íslendingur Guðni Ágústsson tilkynnt framboð sitt til borgarstjórnar í Reykjavík.

Árni Björnsson
Árni Björnsson Einar Falur Ingólfsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert