Fréttir um 1% hækkun misskilningur

Á Reykjavíkurflugvelli. Verkfallsaðgerðir FFR hafa áhrif bæði á innanlands- og …
Á Reykjavíkurflugvelli. Verkfallsaðgerðir FFR hafa áhrif bæði á innanlands- og utanlandsflug. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Flugmálastarfsmenn ríkisins fara fram á ríflega 18% launahækkun að meðaltali, ekki 1% eins og fram kom í fréttum í gær og heldur ekki 25,6% eins og sagði í fréttum í dag. Þetta segir Kristján Jóhannsson, formaður og framkvæmdastjóri FFR.

mbl.is sagði frá því í gær að á samningafundi í kjaradeilu flugvallastarfsmanna og Isavia hefði verið lögð fram tillaga að launaflokkabreytingum og 1% hækkun á launatöflu. Þetta varð Samtökum atvinnulífsins tilefni til fréttatilkynningar í dag, þar sem sagði að forystumenn FFR fari með rangt mál í fjölmiðlum, því þeir krefjist í raun um 25,6% hækkunar launa.

Nú er komið í ljós að upphaflega fréttin var á misskilningi byggð. Í fréttatilkynningu frá FFR sagði orðrétt: „Annarsvegar var lögð fram tillaga á launaflokkabreytingum og eins prósentuhækkanir á launatöflu. Hinsvegar var lagt fram tilboð sem gilda myndi til 2016.“

Með orðalaginu „eins prósentuhækkanir á launatöflu“ var ekki átt við hækkun um 1%, heldur að einnig hafi verið lagðar til prósentuhækkanir. Leiðréttist það hér með.

Kristján Jóhannsson, formaður FFR, sagði í samtali við mbl.is í dag að deilt sé um útfærslu á tölum, en flugvallarstarfsmenn fari fram á 18,2% hækkun á 29 mánaða tímabili sem myndi þýða rúmlega 6% aukinn kostnað yfir árið vegna nýs kjarasamnings. 

Að sögn Kristjáns ber ennþá mikið í milli, en að viðræður á fundinum í gær hafi þó verið góðar. Næsti kjarafundur hefur ekki verið boðaður en Kristján segist vongóður um að árangur náist fljótlega eftir helgi.

Vinnustöðvun verður milli kl. 4 í nótt fram til 9 í fyrramálið og er það þriðja vinnustöðvunin í kjaradeilunni. Að óbreyttu stefnir í allsherjarverkfall flugvallarstarfsmanna á miðvikudaginn, 30 apríl.

Kristján Jóhannsson, félags flugmálastarfsmanna ríkisins
Kristján Jóhannsson, félags flugmálastarfsmanna ríkisins Mynd/FFR
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert