Sinfóníuhljómsveitin á BBC Proms í sumar

Ivan Volkov.
Ivan Volkov. mbl.is/Kristinn

Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur verið boðið að leika á Proms tónlistarhátíðinni undir stjórn aðalhljómsveitarstjóra hennar, Ilans Volkov. Tónleikarnir verða haldnir í Royal Albert Hall þann 22. ágúst næstkomandi.

Í tilkynningu frá hljómsveitinni segir að Proms tónlistarhátíðin, sem haldin er af breska ríkisútvarpinu BBC, sé átta vikna löng hátíð sem fari nú fram 120. sumarið í röð. Hún fer aðallega fram í Royal Albert Hall í London og samanstendur dagskráin af tugum hljómsveitartónleika auk minni kammertónleika. Samtals verða um 100 viðburðir á meðan á hátíðinni stendur.

Proms er án efa ein allra þekktasta og virtasta tónlistarhátíð heims.

Á tónleikum hljómsveitarinnar verða á dagskrá bæði íslensk og erlend verk. Hljómsveitin leikur Geysi eftir Jón Leifs og Magma eftir Hauk Tómasson. Þá eru á efnisskránni Píanókonsert eftir Robert Schumann og eitt þekktasta verk tónbókmenntanna, 5. sinfónía Beethovens. 

„Það er langþráður draumur og mikill heiður að vera boðið á leika á Proms og greinilegt að BBC hefur trú á okkur þar sem við fáum föstudagskvöld í Royal Albert Hall og því líkur á að tónleikarnir verði vel sóttir. Efnisskráin trekkir líka, með frægustu sinfóníu Beethovens auk þess sem Sinfóníuhljómsveitin leikur íslenska tónlist sem lýsir íslenskri náttúru. Við erum því full eftirvæntingar og hlökkum mikið til,“ segir Arna Kristín Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, í tilkynningunni.

Jonathan Biss verður einleikari á tónleikunum

Einleikari á tónleikunum er bandaríski píanóleikarinn Jonathan Biss. Í tilkynningunni segir að hann sé einn af eftirtektarverðustu píanóleikurum sem komið hafi fram á sjónarsviðið á undanförnum árum. Sérstaklega hafi túlkun hans á verkum Schumanns vakið mikla athygli. Biss hefur að undanförnu helgað sig píanótónlist Schumanns og leikið verk hans á yfir fimmtíu tónleikum um allan heim. 

Í dag kynnti BBC dagskrá Proms hátíðarinnar en miðasala hefst 17. maí. Hluti miðanna er í stæði en það er gert til að hafa tónleika hátíðarinnar frjálslega líkt og markmiðið hefur verið frá upphafi þegar tónleikarnir voru að mestu haldnir í lystigörðum Lundúnaborgar. 

Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur áður komið fram á tónleikum erlendis við góðan orðstír meðal annars í Svíþjóð, Danmörku, Finnlandi, Þýskalandi, Austurríki, Frakklandi og Bandaríkjunum, en þetta er í fyrsta skipti sem hún leikur á Proms. 

Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Sinfóníuhljómsveit Íslands. mbl.is/Einar Falur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert