Benda á „tvískinnungshátt ríkisins“

Geysir í Haukadal.
Geysir í Haukadal. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Ríkið er á móti innheimtu aðgangseyris að Geysissvæðinu en á sama tíma stendur hið opinbera fyrir innheimtu aðgangseyris á aðra ferðamannastaði, t.d. að Silfru á Þingvöllum,“ segir í yfirlýsingu Landeigendafélags Geysis, en lögbann á innheimtu aðgangseyris að Geysissvæðinu var staðfest í dag.

Landeigendafélagið segir í yfirlýsingu sinni að rétt sé að benda á „tvískinnungshátt ríkisins“ í málinu. „Rökin fyrir þeirri gjaldheimtu [að Silfru] eru þau sömu og við Geysi, verndun svæðisins, aðgangsstýring og uppbygging á aðstöðu fyrir ferðamenn. Ríkið sem hlutaeigandi að svæðinu við Bláa lónið gerir ekki athugasemd við að tekinn sé aðgangseyrir af ferðamönnum sem ganga umhverfis baðsvæðið né við innheimtu aðgangseyri að Vatnshelli sem er í eigu ríkisins, svo dæmi séu tekin.“

Þá segir að félagið telji nauðsynlegt að málið fari sína leið innan dómskerfisins því mikilvægt sé að fá úr því skorið hvað eignarréttur landeigenda feli í sér og hvaða kröfur ríkið, sem minnihlutaeigandi, geti gert um yfirráð á svæðinu.

Reiða fram sextíu milljónir

Við staðfestingu lögbannsins gerði Sýslumaðurinn á Selfossi ríkinu að reiða fram tæplega sextíu milljón króna tryggingu sem skal berast embættinu fyrir klukkan 10 miðvikudaginn 30. apríl. Að öðrum kosti fellur lögbannið niður. Berist tryggingin fyrir tilsettan tíma hefur ríkið viku til þess að þingfesta staðfestingu lögbannsins og þá getur meðferð málsins fyrir dómstólum hafist.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert