Greiði frekar niður skuldir ríkisins

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynntu leiðréttinguna á blaðamannafundi í Iðnó. Leiðréttingin er eitt helsta stefnumál ríkisstjórnarinnar. mbl.is/Golli

Viðskiptaráð Íslands telur hagkvæmast að nota þá auknu fjármuni sem ríkissjóður kunni að afla á komandi árum til að greiða niður skuldir ríkissjóðs, en ekki til að leiðrétta skuldir tiltekinna heimila, eins og fyrirhugað er.

„Með þeim hætti skapast sterkari þjóðhagslegar forsendur fyrir afnámi hafta, auknum fjárfestingum og bættum vaxtakjörum,” segir í umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp ríkisstjórnarinnar um skuldaleiðréttinguna frægu.

Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis barst alls fjórtán umsagnir um frumvarp til laga um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Fresturinn til að senda inn umsögn rann út síðastliðinn þriðjudag.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra kynntu frumvarpið á blaðamannafundi í Iðnó í lok marsmánaðar, en eins og kunnugt er var frumvarpið helsta kosningaloforð Framsóknarflokksins fyrir Alþingiskosningarnar í fyrra.

Viðskiptaráð er ósammála því að áhrif aðgerðanna á ríkissjóð verði óveruleg. Afli ríkissjóður um 92 milljarða króna tekna með því að hækka bankaskattinn, eins og nú þegar hefur verið gert, mætti nýta þá fjármuni með öðrum hætti. „Skatttekjur eru almennt ekki eyrnamerktar ákveðnum útgjaldaliðum nema í þeim tilfellum sem um er að ræða markaða tekjustofna,” bendir Viðskiptaráð á í umsögn sinni.

Þar kemur einnig fram að hætt sé við því að höfuðstólslækkunin muni að miklu leyti ganga til baka vegna hærra vaxtastigs og áhrifa aukinnar verðbólgu á verðtryggð húsnæðislán, en samkvæmt spá Seðlabanka Íslands munu bæði stýrivextir og verðbólga verða hærri en ella á næstu árum gangi frumvarpið eftir.

Leggur Viðskiptaráð því til að frumvarpið verði ekki að lögum.

Lítur frumvarpið jákvæðum augum

Umboðsmaður skuldara lítur það jákvæðum augum að komið sé til móts við skuldsett heimili. Í umsögn stofnunarinnar segir að skuldarar hafi nú þegar í einhverjum mæli leitað til hennar vegna frumvarpsins. Lúta algengustu fyrirspurnirnar að því hvaða áhrif umrætt frumvarp muni hafa á gildadni samning um greiðsluaðlögum og hvort æskilegt sé að bíða með að sækja um greiðsluaðlögðun þar til niðurstaða um leiðréttingu liggur fyrir.

Seðlabankinn hefur áður fjallað um möguleg efnhagsleg áhrif þessara aðgerða, en mat bankans - í stuttu máli - er það að hreinn auður heimila muni aukast, sem og ráðstöfunartækjur, bætt staða heimila muni auka við innlenda eftirspurn og þá telur bankinn jafnframt að hagvaxtaráhrif aðgerðanna séu tiltölulega takmörkuð, enda muni eftirspurnin að talsverðu leyti beinast að innflutningi.

„Þjóðhagslegur sparnaður muni því minnka og viðskiptajöfnuður verða lakari. Auk þess mun aukinn innflutningur auka þrýsting á gengi krónunnar. Lægra gengi krónunnar en ella og aukinn framleiðsluspenna gera það síðan að verkum að verðbólguþrýstingur verði meiri en ef ekki hefði verið farið í þessar aðgerðir.

Þessu aukni verðbólguþrýstingur mun að hluta til koma fram í hærri vöxtum Seðlabankans,” segir í umsögn bankans.

Þá er bent á gert sé ráð fyrir að bein lækkun höfuðstóls í gegnum ríkissjóð sé að fullu fjármögnuð með bankaskatti. „Um þessa forsendu ríkir eins og kunnugt er óvissa,“ segir í umsögninni.

Setur eigendur fasteignaveðlána í þrönga stöðu

Samtök fjármálafyrirtækja segja að frumvarpið sé í eðli sínu eignarnámsheimild, þar sem það feli í sér að nánar skilgreindur hluti, svokallaður leiðréttingarhluti, þeirra verðtryggðu fasteignaveðlána sem fjármálafyrirtæki, lífeyrissjóðir og Íbúðalánasjóður hafa veitt verði klofinn frá lánunum og greiddur með fjárframlögum á fjórum árum frá ríkissjóði.

„Að mati Samtaka fjármálafyrirtækja setur þetta fyrirkomulag eigendur fasteignaveðlána í þrönga stöðu. Með frumvarpinu eru skapaðar væntingar hjá skuldurum verðtryggðra fasteignaveðlána um lækkun höfuðstóls lánanna þar sem samkomulag um uppgjör er forsenda þess að aðgerðin nái fram að ganga. Við þessar aðstæður verður samningsstaða aðila mjög misjöfn,” segir í umsögn samtakanna.

Ekkert sé heldur fjallað um hvað skuli gera ef samkomulag náist ekki milli aðila á samningum, eins og hefðbundið sé í lagafrumvörpum þar sem eignarnám er heimilað.

„Af orðalagi frumvarpsins má ætla að ríkissjóður áformi að semja sérstaklega við hvern þann aðila sem á fasteignaveðlán, þ.e. einstök fjármálafyrirtæki og einstaka lífeyrissjóði. Hugsanlegt er að misvel gangi að ná samkomulagi við einstaka aðila í þessum samningum. Óljóst er að hvort að samningar við alla aðila er forsenda þess að aðgerðin geti náð fram að ganga,“ segir í umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja.

Taka ekki afstöðu til aðgerðarinnar

Landssamtök lífeyrissjóða taka ekki afstöðu til aðgerðarinnar, hvorki til fjármögnungar né áhrifum hennar á ríkissjóð, þar sem tryggð verður að sjóðirnir beri ekki kostnað af henni. Í umsögn samtakanna segir hins vegar að lífeyrissjóðirnir muni leggja sig fram við að aðgerðin gangi sem greiðast fyrir sig.

Umsagnir húsnæðissamvinnufélaganna Búmanna og Búseta eru keimlíkar. Félögin telja rétt að höfuðstólslækkunin nái einnig til húsnæðissamvinnufélaga og vísa þau til jafnræðisreglu máli sínu til stuðnings.

Alþýðusamband Íslands furðar sig einnig á því af hverju aðgerðin nái ekki til lögaðila.

„Það er með öllu ótækt að undskilja húsnæðissamvinnufélög og sjálfseignarstofnanir fyrir aldraða og öryrkja skuldaniðurfærslunni þar sem hækkun húsnæðislána í kjölfar hrunsins lenti með fullum þunga á þessum rekstarformum og hafa þeir sem völdu sér þessi búsetuform orðið að standa undir hækkun þeirra lána sem á húsnæðinu hvílir,“ segir í umsögn sambandsins.

Kemur ekki til móts við tekjulágt fólk

ASÍ bendir einnig á að frumvarpið komi ekki á neinn hátt til móts við tekjulágt fólk á leigumarkaði. Er lagt til að það fjármagn sem má spara með því að setja tekju- og eignamörk á aðgerðina verði nýtt til að fjármagna nýtt félagslegt íbúðakerfi.

Sambandið telur einnig að með aðgerðunum sé ríkissjóður að verja umtalsverðum fjárhæðum til að greiða niður skuldir tekjuhárra hópa sem hvorki séu í skulda- né greiðsluvanda.

„ASÍ telur þetta ekki rétta ráðstöfun skattfés og leggur til að sett verði eigna- og tekjumörk varðandi það hverjir fái niðurgreiðslur á íbúðalánum sínum úr ríkissjóði,” segir í umsögninni.

Bandalag starfsmanna ríkis og bæjar telur að leiðrétta þurfi öll lán sem íþyngja heimilum vegna hækkunar. Ekki eingöngu lán vegna íbúðarhúsnæðis.

„Telji ríkisstjórnin að forsendubrestur hafi orðið vegna þess að verðbólga var hærri en viö mátti búast, þá gildir það einnig um alla verðtryggða samninga, þar með talið varðandi húsaleigu, námslán, neyslulán og skuldir fyrirtækja,“ segir í umsögn bandalagsins.

Ríkið minnki skuldir sínar

Að lokum segja Samtök atvinnulífsins að mikilvægasta hagsmunamál heimilanna sé að ríkissjóður verði rekinn með afgangi og minnki skuldir sínar. Það sé ein forsenda þess að unnt verði að koma á varanlegum stöðugleika í atvinnulífinu, afnema gjaldeyrishöft og koma Íslandi í eðlilegt fjármálasamband við umheiminn.

„Í þessu ljósi er það mat SA að niðurgreiðsla skulda ríkissjóðs eigi að hafa forgang umfram önnur markmið,“ segir í umsögn samtakanna.

Hér má finna umsagnirnar fjórtán.

Hér má finna frumvarpið í heild sinni.

Skuldaleiðréttingarnar voru fyrst kynntar á blaðamannafundi í Hörpu í lok …
Skuldaleiðréttingarnar voru fyrst kynntar á blaðamannafundi í Hörpu í lok nóvembermánaðar í fyrra. mbl.is/Ómar Óskarsson
Seðlabankinn telur að verðbólguþrýstingur verði meiri en ef ekki hefði …
Seðlabankinn telur að verðbólguþrýstingur verði meiri en ef ekki hefði verið farið í þessar aðgerðir. mbl.is/Árni Sæberg
Samtök fjármálafyrirtækja segja að frumvarpið sé í eðli sínu eignarnámsheimild.
Samtök fjármálafyrirtækja segja að frumvarpið sé í eðli sínu eignarnámsheimild. Samsett mynd/Eggert
Bandalag starfsmanna ríkis og bæjar telur að leiðrétta þurfi öll …
Bandalag starfsmanna ríkis og bæjar telur að leiðrétta þurfi öll lán sem íþyngja heimilum vegna hækkunar. Ekki eingöngu lán vegna íbúðarhúsnæðis. mbl.is/Ómar Óskarsson
Samtök atvinnulífsins segja að mikilvægasta hagsmunamál heimilanna sé að ríkissjóður …
Samtök atvinnulífsins segja að mikilvægasta hagsmunamál heimilanna sé að ríkissjóður verði rekinn með afgangi. Það sé ein forsenda þess að unnt verði að koma á varanlegum stöðugleika í atvinnulífinu. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert