Ingólfur: „Game over“

Ingólfur Axelsson við Everest-fjall.
Ingólfur Axelsson við Everest-fjall. Af Facebook

Nú er ljóst að ekkert verður af áformum Ingólfs Axelssonar, fjallgöngumanns, að klífa tind Everest-fjalls. „Game over,“ skrifar Ingólfur á Facebook-síðu sína.

Mannskætt snjóflóð féll við Everest fyrir viku. Sextán létust. Í kjölfarið ákváðu mörg leiðangursfyrirtæki að hætta við ferðir á fjallið enda sjerparnir, sem flytja m.a. búnað fjallgöngumannanna á fjallið, í sárum og kröfðust kjarabóta, m.a. hærri líftrygginga. Allir þeir sem létust í flóðinu voru sjerpar.

Lengi vel var þó útlit fyrir að leiðangur Ingólfs myndi halda sínu striki og klífa tindinn. Ingólfur sagði í samtali við mbl.is á miðvikudag að sjerparnir í hans leiðangri hefðu viljað halda áfram. Þeir hafi ekki verið beittir þrýstingi hvað þá ákvörðun varðar.

Í gær funduðu nepölsk stjórnvöld með sjerpunum. Í frétt AFP segir að sjerparnir segjast nú vilja heiðra minningu þeirra sem létust og yfirgefa fjallið. Ferðamálaráðherra Nepal hefur þó sagt að fjallið sé opið. „Þeir segja að fjallið sé opið en það er ekki öruggt fyrir nokkurn okkar að klífa það þetta árið,“ hefur AFP-fréttstofan eftir suður-afríska fjallgöngumanninum Saray Khumalo.

Vilborg Arna Gissurardóttir ætlaði einnig að fara á tind Everest. Hún ákvað hins vegar á miðvikudag að hætta við og er nú á heimleið.

Mjög kostnaðarsamt er að fara á Everest-fjall, það kostar fjallgöngu menn að minnsta kosti 11 þúsund dollara, rúmlega 1,2 milljónir. Kostnaður er þó yfirleitt á bilinu 5-13 milljónir króna. 

Frétt mbl.is: „Ég er mjög kvíðinn“

Frétt mbl.is: Vilborg lögð af stað heim

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert