Krían kom á sumardaginn fyrsta

Krían er einn helsti vorboðinn.
Krían er einn helsti vorboðinn. Eggert Jóhannesson

Fyrstu kríur vorsins sástu við Höfn í Hornafirði í gærmorgun, á sumardaginn fyrsta. Samkvæmt Brynjúlfi Brynjólfssyni, fuglaáhugamanni á Höfn og umsjónamanns vefsins www.fuglar.is sáust þar þrjár til fjórar kríur við Ósland við Höfn í Hornafirði.

„Við sjáum alltaf kríurnar fyrst, það er bara þannig,“ segir Brynjúlfur en samkvæmt honum birtast kríurnar á hverju ári fyrst við Óslandið. „Þær koma einnig alltaf á svipuðum tíma en það fer yfirleitt eftir veðri hvaða dag þær koma nákvæmlega.“

Samkvæmt Brynjúlfi sáust einnig kríur við Ósland í morgun og gerir hann ráð fyrir því að eftir viku verði allt fullt af kríum þar, komi ekki norðanátt.

Aðspurður segir Brynjúlfur að fleiri vorboðar hafi látið sjá sig við Höfn en þar birtust þrír spóar á dögunum. „Við erum búnir að sjá þrjá spóa og svo var tilkynnt um einn annan á Reykjanesi. Annað höfum við ekki heyrt en það er ekkert óeðlilegt.“ Segir Brynjúlfur jafnframt að lítið hafi sést af kjóanum en hann kemur yfirleitt á svipuðum tíma og krían og spóinn.  

Þeir vorboðar sem eiga eftir að láta sjá sig á Höfn eru óðinshaninn og þórshaninn. „Þeir fuglar eru mikið úti á sjó og gæti því vel verið að þeir séu komnir þó við séu ekki búnir að sjá þá. Það er allavega ekki búið að tilkynna komu þeirra. “

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert