Skýjað að mestu í dag

mbl.is/Sigurgeir

Veðurstofan spáir í dag allt að fjórtán stiga hita en hlýjast verður á Austurlandi. Annars verður hæg breytileg átt í dag, víða skýjað og þurrt að mestu, en þó rigning með köflum norðantil á landinu fram á kvöld. 

Á morgun mun létta víða til. Hiti verður á bilinu fimm til fjórtán stig, hlýjast á Austurlandi í dag, en suðvestan til á morgun, laugardag.

Á höfuðborgarsvæðinu er spáð hægri breytilegri átt. Skýjað verður að mestu í dag, og þurtt að kalla, en á morgun mun hins vegar létta til. Hiti verður á bilinu fimm til tólf stig.

Nánari upplýsingar má finna á veðurvef mbl.is.

Svona er spáin næstu daga:

Á laugardag:

Hæg norðlæg eða breytileg átt. Skýjað N-til á landinu og hiti 2 til 6 stig. Bjart með köflum annars staðar og hiti 6 til 12 stig að deginum. 

Á sunnudag:

Norðaustan 5-13 m/s og lítilsháttar skúrir eða él, en þurrt og bjart á S- og V-landi. Kólnandi veður. 

Á mánudag:

Austan- og norðaustanátt, víða 5-10 m/s. Yfirleitt bjart veður um landið V-vert, en stöku él eða skúrir A-til fyrripartinn, en SV-lands um kvöldið. Hiti um og undir frostmarki, en að 6 stigum yfir daginn á S- og V-landi. 

Á þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag:

Útlit fyrir austlæga átt. Bjartviðri N-lands, skýjað og þurrt að kalla með A-ströndinni, en stöku skúrir SV-til. Hiti breytist lítið.

Greiðfært um flesta vegi

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er nú greiðfært um flesta vegi á landinu. Búið er að opna veginn yfir Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði, en þór er ekki orðið fært um Trostansfjörð.

Þá er jafnframt búið að opna veginn yfir Öxi, en þar er krapasnjór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert