12 ára drengur kveikti eldinn óvart

Slökkviliðið berst við eldinn í Rimaskóla.
Slökkviliðið berst við eldinn í Rimaskóla. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur upplýst bruna í færanlegum kennslustofum við Rimaskóla í Reykjavík í gær, en eldurinn kviknaði eftir að 12 ára drengur var að fikta með eld.

Ekki var um ásetning að ræða, heldur slysni, að sögn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Rætt hefur verið við drenginn og foreldra hans með aðstoð barnaverndaryfirvalda.

Eldurinn kom upp í tréskúrum sem ekki höfðu verið notaðir sem kennslustofur um nokkra hríð. Eldurinn breiddist hratt út og lagði mikinn, svartan reyk yfir skólalóðina. Frímínútur voru þegar eldsins varð vart og varð mörgum börnum hverft við.

Allt tiltækt slökkvilið á höfuðborgarsvæðinu var kallað út vegna brunans, auk manna sem voru á frívakt. Það tók slökkviliðsmenn um 30-40 mínútur að ná tökum á eldinum og eru tveir skúrar gjöreyðilagðir auk þess sem málning sviðnaði af veggjum í nærliggjandi skólaseli.

Barist við eldinn við Rimaskóla.
Barist við eldinn við Rimaskóla. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
Eldsvoði í Rimaskóla í gær.
Eldsvoði í Rimaskóla í gær. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert