Flugvallarstarfsmenn skrifuðu undir

Frá undirritun samningsins í kvöld.
Frá undirritun samningsins í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Skrifað var undir kjarasamning Félags flugmálastarfsmanna ríkisins (FFR) við ISAVIA nú fyrir stundu í húsnæði ríkissáttasemjara. Kristján Jóhannsson, formaður og framkvæmdastjóri FFR, í samtali við mbl.is fyrr í kvöld að samningurinn gilti til þriggja ára. Kveður hann á um rúmlega 4% hækkun launa á ári eða rúmlega 14% hækkun yfir samningstímabilið.

Fyrr í kvöld ákváðu forsvarsmenn flugvallastarfsmanna að fresta verkfalli til 22. maí. Allsherjarverkfall átti að hefjast á miðnætti á öllum flugvöllum landsins.

Kristján sagði fyrr í kvöld í samtali við mbl.is að samningurinn væri ágætur sem slíkar en vissulega sé launahækkunin minni en lagt var upp með í byrjun. „Í ljósi þeirra aðstæðna sem uppi eru þegar við klárum held ég að við höfum náð að gera ágætis samning,“ segir Kristján en bendir á að samningurinn sé vissulega háður samþykki félagsmanna FFR. 

„Ég tel þetta mjög ásættanlega niðurstöðu. Þarna tókst að stýra verulegu tjóni sem hefði geta hlotist af. Það er ánægjulegt að þetta skuli vera í höfn,“ sagði Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, eftir að skrifað var undir samninginn.

Miðað er við 2,8% launahækkun á þessu ári sem er samsvarandi hækkun og á almennum vinnumarkaði. Þó fá félagsmennirnir að lágmarki 8 þúsund króna hækkun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert