Skora á þingmenn að færa frídaga

mbl.is/Styrmir Kári

Í tilefni dagsins hvetja starfsmenn Tals alla stjórnmálaflokka á Alþingi til að beita sér fyrir því að koma fram með frídagafrumvarp sem nær fram tveimur meginmarkmiðum launþega til aukinna þæginda.

Annars vegar að ef frídagar lenda á virkum degi verði þeir færðir fram á föstudag í sömu viku og hins vegar að gefinn verði einn aukafrídagur næsta virka dag ef að lögboðinn frídagur lendir á helgi.

Í fréttatilkynningu segir að starfsmenn Tals hafi samþykkt þessa tillögu með miklum meirihluta í skoðanakönnun sem framkvæmd var í fyrirtækinu. Í kjölfarið skorar starfsfólk Tals á alla stjórnmálaflokka á Alþingi að gefa upp hver þeirra afstaða sé til málsins. Að sama skapi hefur Tal sent fyrirspurn á þingmenn persónulega þar sem spurt er um afstöðu þeirra til málsins.

Hægt verður að fylgjast með framvindu mála á samfélagsmiðlum Tals, Facebook og Twitter.

Guðmundur Halldór Björnsson, forstöðumaður sölu- og markaðssviðs Tals, segir að ákveðið hafi verið að fyrirtækið muni blanda sér annað slagið inn í samfélagslega umræðu að því gefnu að aukinn meirihluti starfsmanna styðji við málefnið.

Blanda sér inn í samfélagslega umræðu

„Tal er fjölskylduvænt fyrirtæki og vill starfsfólkið með þessu ganga enn lengra í þeirri vegferð. Íslendingar vinna lengri vinnuviku en flestar þjóðir í heiminum. Ef lögboðinn frídagur lendir á helgi viljum við að gefinn verði einn aukafrídagur næsta virka dag ásamt því að frídagur sem lendir á virkum degi verði færður fram á föstudag sömu viku til að lengja samfellt frí landsmanna,“ er haft eftir honum í tilkynningunni.

„Þetta skref sem Tal er að taka er til marks um þá áherslubreytingar sem orðið hafa hjá fyrirtækinu á undanförnum mánuðum og er að okkar mati einnig góð leið til að sýna núverandi og væntanlegum viðskiptavinum Tals hvað fyrirtækið, sem er ekkert nema starfsfólkið, stendur fyrir,“ segir hann jafnframt.

Tal sé því líklega fyrsta íslenska fjarskiptafélagið sem blandar sér inn í samfélagslega umræðu með þessum hætti en til séu einhver dæmi erlendis frá. „Nýlegasta dæmið er þegar AT&T, eitt stærsta fjarskiptafyrirtæki í heiminum, fordæmdi opinberlega afstöðu Rússa gagnavart samkynhneigðum á vetrarólympíuleikunum,“ er nefnt í tilkynningunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert