Borgin hefur virt samkomulagið

Reykjavíkurflugvöllur.
Reykjavíkurflugvöllur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Reykjavíkurborg hefur virt samkomulag við innanríkisráðuneytið og Icelandair um innanlandsflug frá 25. október 2013 í einu og öllu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá borginni vegna frétta um flugvallarmálið undanfarna daga.

„Nýtt deiliskipulag fyrir Reykjavíkurflugvöll er í fullu samræmi við samkomulagið og var raunar kveðið á um fjölmörg atriði þess í samkomulaginu, m.a. stækkun flugstjórnarmiðstöðvar, flugstöðvarinnar, niðurlagningu þriðju flugbrautarinnar og fleira,“ segir í tilkynningu borgarinnar.

Þá segir að uppbyggingaráform Valsmanna á Hlíðarenda sé einnig í fullu samræmi við samkomulagið, þótt ekki sé kveðið sérstaklega á um þau í samkomulaginu.

Borgarráð hefur gert sérstaka bókun um að við mótun skipulags í Skerjafirði verði horft til niðurstöðu nefndar sem nú er að störfum undir forystu Rögnu Árnadóttur. 

Isavia hefur það verkefni með höndum að finna framtíðarstaðsetningu fyrir æfinga- og kennsluflug, en í samkomulaginu segir: „Óháð öðrum verkþáttum sem í samkomulaginu felast munu innanríkisráðuneytið og Isavia hafa forgöngu um að kennslu- og einkaflugi verði fundinn nýr staður í nágrenni borgarinnar í samræmi við áður gefin fyrirheit vegna endurbyggingar vallarins um síðustu aldamót og skal stefnt að því að framkvæmdir verði hafnar eins fljótt og verða má.“

Samkomulagið má sjá hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert