Evrópumálið of fyrirferðarmikið

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnhagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnhagsráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég held að það sé öllum ljóst að það hafi verið farið fullbratt á eftir skýrslunni fram með tillöguna,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnhagsráðherra, á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.

Átti hann þar við þingsályktunartillögu Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra um að draga ætti aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka.

Þingsályktunartillagan, sem hefur sætt mikilli gagnrýni meðal stjórnarandstæðinga, var lögð fram aðeins nokkrum dögum eftir að skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um stöðu aðildarviðræðnanna kom út.

„Ég hef skilning á því að mönnum þykir sem að skýrslan hafi ekki fengið nægilega umræðu áður en tillagan kemur fram. Það er hins vegar ekkert nema eðlilegt að ríkisstjórnin geri grein fyrir vilja sínum í málinu, eins og í raun er verið að gera með þessari þingsályktunartillögu,“ sagði Bjarni.

Hann sagðist þó telja að í ljósi þess að ríkisstjórnin væri með ýmis önnur mál í forgangi, þá hefði þetta mál, sem varðar þingsályktunartillöguna, verið of fyrirferðarmikið á þinginu.

„Það hefði mögulega mátt finna betra tímasetningu fyrir það eða ígrunda það lengur og betur nákvmæmlega hvað væri eðlilegt framhald í kjölfar þess að skýrslan var lögð fram og rædd.

Hvað sem öllu öðru líður þá er þessi ríkisstjórn ekki að fara í viðræður við Evrópusambandið. Það er auðvitað aðalatriði málsins,“ sagði Bjarni.

Frétt mbl.is: Ekki ánæðgur með fylgið

Frétt mbl.is: Góð rök fyrir því að fjölga seðlabankastjórum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert