Grunaður um að reyna að tæla dreng

mbl.is/Kristinn Freyr Jörundsson

Karlmaður er grunaður um að hafa reynt að tæla ungan dreng upp í bifreið í Stakkahlíð í Reykjavík síðdegis sl. föstudag. Samkvæmt upplýsingum frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bauð maðurinn drengnum sælgæti. Pilturinn brást hins vegar rétt við og forðaði sér og lét foreldra sína vita.

Lögreglan segir að atvikið hafi átt sér stað um kl. 17 við húsnæði Kennaraháskóla Íslands í Stakkahlíð. Pilturinn, sem er níu ára gamall og nemandi við Háteigsskóla, var einn á gangi þegar maðurinn stöðvar bifreið sína, sem að sögn lögreglu er stór jeppi, og gengur út og býður drengnum sælgæti.

Lögreglan segir að drengurinn hafi brugðist rétt við með því að forða sér og láta foreldra sína vita sem tilkynna málið til lögreglunnar, en lögreglumenn fóru á vettvang.

Að sögn lögreglu var ekki talað um að maðurinn hefði beðið piltinn um að koma með sér en lögreglan lítur aftur á móti á atvikið sem tælingarmál.

Pilturinn gat gefið lögreglunni lýsingu á manninum sem gengur enn laus.

Lögreglan hvetur foreldra til að brýna það fyrir börnum sínum að taka ekki við sælgæti eða fara upp í bíla hjá ókunnugu fólki.

Fram kemur á vef RÚV og Vísi að skólastjóri Háteigsskóla hafi sent foreldrum og forráðamönnum barna tölvupóst þar sem greint er frá atvikinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert