Tillagan verði lögð til hliðar

Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar.
Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég held að í því felist tækifæri fyrir okkur til að setja til hliðar þetta deilumál sem skapað hefur mikla erfiðleika í þinghaldinu í vetur og einbeita okkur að þeim forgangsmálum ríkisstjórnarinnar sem hafa einmitt verið til umræðu í störfum þingsins.“

Þetta sagði Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, á Alþingi í dag og vísaði þar til þingsályktunartillögu Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra þess efnis að umsóknin um inngöngu Íslands í Evrópusambandið yrði dregin til baka. Sagðist hann sem þingflokksformaður Samfylkingarinnar fagna þeim orðum Birgis Ármannssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins og formanns utanríkismálanefndar Alþingis, að undanförnu að ekki væri raunsætt að hægt yrði að afgreiða tillöguna úr nefndinni innan þess tímaramma sem starfsáætlun þingsins næði til.

„Það geta auðvitað verið ólík sjónarmið um stóru skuldamálin en ég held að það hljóti að vera mikilvægt og mikill ávinningur í því ef takast mætti að afgreiða þau nú þegar þau eru komin úr nefnd og gera að lögum af þeim sem það vilja og styðja og koma í framkvæmd áður en kemur að sveitarstjórnarkosningunum núna í lok maí,“ sagði hann ennfremur. Horfast þyrfti í augu við það að ekki yrði lengra komist með málið innan starfsáætlunarinnar og leggja ætti málið til hliðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert