Góð samstaða með flugvallarvinum

Efstu fimm frambjóðendur listans
Efstu fimm frambjóðendur listans mbl.is/Árni Sæberg

„Samþættingin hefur gengið mjög vel og við erum að ganga í sömu átt. Það mætti eiginlega segja að við séum enn að bíða eftir fyrsta ágreiningnum,“ sagði Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir létt í bragði, en hún skipar efsta sætið á framboðslista Framsóknar og flugvallarvina í borgarstjórnarkosningunum nú í maí. Framboðið kynnti í dag stefnumálin sín fyrir kosningarnar í kosningamiðstöð sinni á Suðurlandsbraut. 

Frambjóðendur hafa unnið að stefnuskránni á undanförnum vikum og eins og gefur að skilja skipar flugvallarmálið stóran sess þar. „Við viljum virða vilja Reykvíkinga þar sem yfir 70% þeirra vilja hafa flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni en við viljum líka tryggja að neyðarflugbrautin verði áfram opin. Það er gríðarlegt öryggismál fyrir landsmenn,“ sagði Gréta Björg Egilsdóttir sem skipar þriðja sætið á listanum. Þá er það einnig stefna listans að fjölga íbúðum, byggja knattspyrnuhöll og koma á 20 þúsund króna frístundakorti eldri borgara. 

Sveinbjörg segir það jákvætt fyrir samstarf flugvallarvina og Framsóknarmanna að frambjóðendur eiga sér ekki langan pólitískan feril að baki. „Við höfum sest niður öll, rökrætt málin, velt fyrir okkur kostum og göllum og komist að niðurstöðu og við erum öll afar  lausnarmiðuð. Við teljum að þetta sé pólitíkin sem Reykvíkingar vilja.“

Facebooksíða framboðsins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert