Lög á flugmenn ekki útilokuð

„Við vonum í lengstu lög að samningar náist. Þó má ekki útiloka aðkomu ríkisvaldsins, enda alvarlegt ef flugmannadeilan skaðar almannahagsmuni og stöðvar samgöngur til og frá landinu. Lagasetning er því ekki útilokuð, þó neyðarúrræði sé,“ segir Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra. 

Kjaraaðgerðir flugmanna Icelandair hafa víða sett strik í reikninginn. Vinnustöðvun á föstudag leiddi til þess að 28 flugferðir félagsins voru felldar niður. Í dag, sunnudag, er 21 ferð blásin af vegna yfirvinnubanns flugfélagsins sjálfs. Í Bandaríkjaferðum nú síðdegis er aðeins flogið til Seattle, en ekki annarra staða vestra svo sem New York, Washington og Boston svo nokkrir séu nefndir. Þá voru ferðir til Stokkhólms, Amsterdam og morgunflugið til Lundúna fellt niður. Þá hafa ferðir Icelandair Cargo raskast og það kemur mjög við fiskútflytjendur.

Flugmannadeilan var rædd á fundi ríkisstjórnarinnar sl. föstudag. Málið er á könnu innanríkisráðherra sem hefur með samgöngumál að gera, en þess má geta að Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra reifaði þessi mál einnig, það er búsifjar sem ferðaþjónustan gæti orðið fyrir vegna verkfallsaðgerða.

„Svo lengi sem samningafundir eru haldnir hlýtur að vera von um lausn. Og finni menn taktinn í svona viðræðum geta hlutirnir auðvitað gerst mjög hratt og samningar náðst,“ segir Hanna Birna. Hún segir fólk ekki heldur hafa gefið sér neina tímasetningu sem viðmið um hvenær lög ætti setja, en nefna má að næsta boðaða vinnustöðvun flugmanna er nk. föstudag. 16. maí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert