Hvítt í görðum á Siglufirði

Siglufjörður
Siglufjörður mbl.is

Hvítt var í fjöllum og görðum í Siglufirði þegar íbúar vöknuðu í morgun. Norðangarri var þar í gærkvöldi með smávegis ofankomu og enn muggar nyrðra, enda hiti við frostmark, að sögn Sigurðar Ægissonar fréttaritara mbl.is á Siglufirði. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni hefur verið kalt í veðri um norðaustanvert landið undanfarna daga og hiti víða um frostmark.

Að sögn Sigurðar er hrafninn er kominn með unga og álft, tjaldur og æðarfugl liggja á eggjum og aðrir fuglar eru teknir að huga að varpi eða jafnvel byrjaðir einhverjir.

Samkvæmt upplýsingum frá veðurfræðingi á Veðurstofu Íslands má búast við því að það hlýni á Norður- og Austurlandi næstu daga en í næstu viku er spáð norðanátt. Því er útlit fyrir annað kuldakast þá. 

Þæfingur á Hófaskarði

Það er snjóþekja á Þröskuldum, Hólaheiði, Sandvíkurheiði, Möðrudalsöræfum og Vopnafjarðarheiði og þæfingur á Hófaskarði. Hálkublettir eru á Mývatnsöræfum og hálkublettir og éljagangur nokkuð víða á norðausturhorni landsins. Aðrar aðalleiðir landsins eru greiðfærar, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.

Veðurspá fyrir næstu daga:

Austan 5-13 m/s nyrst, annars hæg breytileg átt en austan og suðaustan 5-13 undir hádegi. Skýjað og lítilsháttar úrkoma NA-til fram eftir morgni, en um landið S- og V-vert undir hádegi, einkum þó seinnipartinn og í kvöld. Víða dálítil væta á morgun, síst NA-til og suðlægari seinnipartinn. Hiti 2 til 10 stig að deginum, mildast SV-lands.

Á miðvikudag:

Sunnan og suðaustan 5-10 og lítilsháttar rigning, en skýjað með köflum og þurrt á NA-verðu landinu. Hiti 5 til 12 stig, hlýjast NA-til. 

Á fimmtudag:
Suðvestan 3-10 og lítilsháttar rigning eða súld vestantil, en víða léttskýjað um landið austanvert. Hiti breytist lítið. 

Á föstudag:
Suðvestanátt, víða 5-10 og væta vestantil, einkum síðdegis en bjartviðri fyrir austan. Hiti 5 til 10 stig. 

Á laugardag:
Austan og suðaustanátt. Rigning með köflum um landið sunnanvert en úrkomulítið fyrir norðan. Fremur milt í veðri. 

Á sunnudag:
Gengur í norðanátt og úrkomu fyrir norðan en bjartviðri syðra og kólnandi veður, einkum norðantil. 

Á mánudag:
Útlit fyrir svala breytilega átt og lengst af þurrt veður.

Horft út um bílrúðu fréttaritara um kl. 07.30 í morgun
Horft út um bílrúðu fréttaritara um kl. 07.30 í morgun mbl.is/Sigurður Ægisson
Siglufjörður fremur grár miðað við árstíma.
Siglufjörður fremur grár miðað við árstíma. mbl.is/Sigurður Ægisson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert