„Loka landinu og valda gífurlegu tjóni“

Pétur H. Blöndal alþingismaður.
Pétur H. Blöndal alþingismaður. mbl.is

„Við upplifum núna að verkfall flugmanna lokar hreinlega landinu. Og þeir fórna litlu, þeir fórna kannski nokkrum yfirvinnutímum eða nokkrum tímum í viku, en þeir loka landinu og valda gífurlegu tjóni,“ sagði Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi í dag. Í árdaga hafi verkfallsvopninu verið beint að viðkomandi fyrirtæki en síðar hafi menn uppgötvað að það væri „snjallt að berja á þriðja aðila til þess að ná fram kröfum sínum“.

Beindi Pétur því næst orðum sínum til Ögmundar Jónassonar, þingmanns Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, í ljósi reynslu hans af verkalýðsmálum. Spurði hann Ögmund hvort ekki þyrfti að endurskoða verkfallsréttinn í þessu ljósi. Þannig væri réttinum í dag í raun beint að fólki sem ætti enga aðild að viðkomandi kjaradeilu og gæti engin áhrif haft á hana í stað þess fyrirtækis sem í hlut ætti.

Ögmundur benti á að ákveðinn lagarammi gilti um framkvæmd verkfallsréttarins og hann yrði að virða. „Ég vil hins vegar taka fram að verkfallsréttinum verður að beita á réttlátan hátt. Það er grundvallaratriði. Og ég vil taka þátt í umræðu um það hvenær ég tel það vera gert eða ekki. Ef við hins vegar beitum lögum til að hafa þennan rétt af fólki þá er skapað fordæmi sem er varasamt gagnvart allri launaþjóðinni. Ég mun því aldrei greiða atkvæði með því að sett verði lög á launafólk.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert