Ekki reykingabann í Kópavogi

Kópavogur
Kópavogur Ómar Óskarsson

Ákvæði um reykingabann á opnum svæðum í Kópavogi var fellt úr nýrri lögreglusamþykkt á fundi bæjarráðs Kópavogs í gær. Lögreglusamþykktin var að öðru leyti samþykkt.

Ákvæði um forvarnir gegn reykingum verða í stað þess tekin upp í lýðheilsustefnu bæjarins.

Ómar Stefánsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins, lagði tillögu að ákvæðinu fram og segist ósáttur með úrslit mála. „Maður er aldrei glaður þegar tillögur sínar eru felldar en vísað var til þess að vinna við lýðheilsustefnu Kópavog stæði nú yfir,“ segir hann.

Ómar segir menn almennt hafa verið jákvæða í garð tillögunnar, en nokkrum hafi þó fundist að fulllangt væri gengið.

Þá segist hann ekki ætla að bera málið aftur upp á næstunni, þar sem einungis tveir bæjarráðsfundir eru nú eftir af kjörtímabilinu. „Ég las salinn nú þannig að það þætti líklega ekki vinsælt ef ég kæmi aftur með tillöguna eftir tvær vikur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert