Lýsa eftir bíl og pallhýsi

Bílnum var stolið úr geymslu í Súðarvogi í Reykjavík.
Bílnum var stolið úr geymslu í Súðarvogi í Reykjavík.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lýsir eftir Ford F350 Crew 4x4 SRW pallbíl, en honum var stolið úr geymsluhúsnæði í Súðarvogi í Reykjavík. Pallhýsið var ofan á bílnum og var því einnig stolið. Pallbíllinn hafði verið í geymslu undanfarna mánuði og því er ekki vitað með vissu hvenær honum var stolið, en þjófnaðurinn uppgötvaðist í gær.

Skráningarnúmer ökutækisins, AT-837, voru lögð inn í vetur, en einnig hafði eigandinn fjarlægt rafgeymirinn úr bílnum. Pallbíllinn var læstur þegar honum var stolið.

Þeir sem geta gefið upplýsingar um hvar bíllinn er niðurkominn eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögreglu, en upplýsingum má koma á framfæri í tölvupósti á netfangið abending@lrh.is eða í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Ef einhver sér til pallbílsins í umferðinni er hinn sami vinsamlegast beðinn um að hringja tafarlaust í 112 svo hægt sé bregðast við strax.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert