Nýjar reglur um sprengingar

Frá framkvæmdum á á Lýsisreit.
Frá framkvæmdum á á Lýsisreit. Árni Sæberg

Reykjavíkurborg hefur sett reglur um sprengiframkvæmdir í jarðvinnu og takmarkar þannig bylgjuhraða og tíðni sprenginga. Þetta kemur í kjölfar gagnrýni og málsóknar sem nágrannar við byggingarframkvæmdirnar við Grandaveg 42-44 ætla í við verktakafyrirtæki. Tryggingar að baki slíkum framkvæmdum miða í dag við leyfileg efri mörk, en í bréfi byggingarfulltrúa er gildandi reglugerð sögð mjög rúm og tryggingar því að verulegu leyti ómarktækar.

Nýjar viðmiðunarreglur fyrir hámarksgildi sprengiafls við sprengiframkvæmdir innan byggðar í borginni miða nú við að hámark bylgjuhraða sé 15 millimetrar á sekúndu og að hámarki og 10 Hz að lágmarkstíðni. Skal mæling miðast við lóðarmörk framkvæmda.

Málið var tekið fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur í síðustu viku og var þar samþykkt.

Nágrannar við framkvæmdina hafa lengi kvartað yfir miklum látum og skemmdum á fasteignum vegna sprenginganna. Haldinn var fjölmennur íbúafundur fyrr á árinu þar sem einn fundarmaður sagði að sprungur væru komnar í fasteign hans. Um síðustu mánaðarmót var svo greint frá því að íbúar fjögurra fasteigna við Grandaveg og Lágholtsveg undirbúi nú málsókn á hendur verktakafyrirtækinu og tryggingafélagi þess vegna skemdanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert