Gæti hafið viðræður fyrirvaralaust

Ragnar Arnalds, fyrrverandi fjármálaráðherra.
Ragnar Arnalds, fyrrverandi fjármálaráðherra. mbl.is

„Til þess að Íslendingar séu virtir sem sjálfstæður samningsaðili af hálfu þriðju ríkja er óheppilegt að Ísland sé einhvers konar viðhengi við ESB. Einnig er hætt við að erfiðara verði fyrir Íslendinga að gera sjálfstæða viðskiptasamninga við ríki í öðrum heimsálfum, ef það liggur ekki ljóst fyrir hver staða Íslands er gagnvart ESB.“

Þetta segir Ragnar Arnalds, fyrrverandi fjármálaráðherra, í pistli á vefsíðunni Vinstrivaktin gegn ESB þar sem hann gerir að umfjöllunarefni sínu þingsályktunartillögu Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra um að draga umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu til baka en hún var ekki afgreidd á Alþingi fyrir þinglok. Ragnar segir að það hefði ýmsar afleiðingar að draga ekki umsóknina formlega til baka. Þannig yrði Ísland þar með áfram umsóknarríki að sambandinu.

„Þar að auki er augljóst að ný ríkisstjórn gæti þá tekið upp aðildarviðræður að nýju fyrirvaralaust og án samþykkis Alþingis, ef samþykkt Alþingis frá árinu 2009, sem veitti framkvæmdavaldinu heimild til samningaviðræðna við ESB, hefði ekki verið afturkölluð. Það er því ljóst að mjög óheppilegt væri að núverandi ríkisstjórn skildi málið algerlega eftir í lausu lofti. Hún verður að setja punktinn aftan við þetta mál með svo skýrum hætti að ný ríkisstjórn geti ekki farið aftur af stað með málið án samþykkis Alþingis og þjóðarinnar.“

Pistill Ragnars Arnalds

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert