Heillandi og ógnvekjandi í senn

„Loksins er hægt að hleypa hænsnunum upp úr firðinum,“ segir Guðjón Kr. Halldórsson, íbúi í Mjóafirði, en Vegagerðinni tókst fyrir helgi að opna veginn yfir Mjóafjarðarheiði. Guðjón segir að Vegagerðin sé hálfum mánuði fyrr á ferðinni en í fyrra en tvo síðustu vetur hafi verið afar snjóþungt.

Vegurinn um Mjóafjarðarheiði hefur verið lokaður frá því í haust og íbúar í firðinum hafa því þurft að treysta á flóabátinn Anný sem gengur allt árið á milli Mjóafjarðar og Neskaupstaðar tvisvar í viku allt árið. „Ef við erum að fara í lengri ferðir þá höfum við þurft að notfæra okkur hana. Þá förum við yfir á Norðfjörð og keyrum þaðan. Við höfum haft það þannig að einhver héðan er með bíl til taks þar, til að komast lengra.“

Guðjón gekk upp á Mjóafjarðarheiði í gær og tók myndirnar sem sjá má hér að ofan. Hann segir að það hafi verið eins og detta inn í annan heim. Það hafi verið heillandi að ganga svona umlukinn en jafnframt ógnvekjandi. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni var snjódýptin mest á heiðinni 5,5 metrar. 

Gott að komast í Bónus

Á vefsvæði Fjarðarbyggðar má lesa um Mjóafjörð. Þar segir að fjörðurinn sé 18 kílómetra langur og sé í raun eins og falinn fjársjóður á milli fjallanna, en þar er mikil kyrrð og fallegir fossar. Að jafnaði búa um 25 manns í Mjóafirði og það þrátt fyrir að þangað sé ekki hægt að aka jafnvel hálft árið, en það var einmitt tilfellið í fyrra.

Guðjón segir því jafnan gott þegar tekst að opna veginn að nýju á vori. „Það er svakalega gott að hleypa okkur upp úr firðinum til að komast í Bónus,“ segir hann. „Í fyrra vorum við innilokuð í sex mánuði og þá opnaðist 31. maí eða 1. júní. Við þurftum meira að segja að fresta einum degi af sumarfríinu okkar á Tálknafirði því við komumst ekki upp úr firðinum. Og þegar það tókst vorum við meira að segja með jeppa á undan okkur ef við skyldum lenda í vandræðum. Það var ævintýri.“

Frétt mbl.is: Vegagerðin tekst á við snjóinn

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert