Lækkun á veiðigjöldum samþykkt

Myndin er tekin í fiskvinnslu HB Granda á Akranesi
Myndin er tekin í fiskvinnslu HB Granda á Akranesi mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alþingi samþykkti í gærkvöldi frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðigjöld. Skiptar skoðanir voru á frumvarpinu en með því lækkar veiðigjald á útgerðir, sökum versnandi afkomu sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja og lækk­andi afurðaverðs á er­lend­um mörkuðum.

Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegsráðherra, þakkaði við atkvæðagreiðsluna á þingi í gærkvöldi atvinnuveganefnd Alþingis og þingmönnum öllum fyrir óvenjulega málefnalega umræðu um veiðigjaldið þetta árið. „Ég tel að við séum á réttri leið. Við erum að horfa til þess að í landinu er mjög fjölbreyttur sjávarútvegur, horfa til þess að horfurnar eru verri en hafa verið um nokkurra ára skeið og ég tel að við séum á góðri leið með að ná því markmiði að ræða um okkar mikilvægu atvinnugrein á skynsamlegum nótum.“

Hann sagði að nánar verði farið yfir málið á næstu vikum og í sumar en að hann telji málið gott fyrir landið allt og þær 620 útgerðir sem hér starfa, smáar sem stórar.

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, sagði ýmislegt horfa til betra vegar eftir meðferð atvinnuveganefndar þingsins á frumvarpinu. „En vandinn við að styðja málið er mikill því í því felst enn frekari lækkun veiðiheimilda. Það er ekki eðlilegt að setja það í forgang að draga stöðugt úr gjaldtöku fyrir aðgang að sameiginlegum auðlindum.“

Hann sagðist frekar hafa viljað fara í þá vegferð með ríkisstjórninni að finna leið til að sætta þau sjónarmið að greinin eigi að greiða sanngjarnt verð til þjóðarinnar og að verð eigi að ráðast af getu greinarinnar á hverjum tíma. „Besta leiðin til þess er að láta verðmyndun á markaði með veiðiheimildir ráða því endurgjaldi sem greinin greiðir til þjóðarinnar. Það er sanngjarnt og réttlátt bæði fyrir greinina og þjóðina.“

Frumvarpið

Sjá breyt­ing­ar­til­lögu á veiðigjalda­frum­varpi

Sjá nefndarálit um veiðigjalda­frum­varp

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert