Óbærilegur söknuður eftir Íslandsdvöl

Óbærilegur söknuður er líklega rétt lýsing á líðan Arielle Demchuck þessa dagana. Hún er kanadískur rithöfundur af íslenskum uppruna sem heimsótti landið í apríl. Arielle kolféll fyrir landi og þjóð og segir íslenska tungumálið hljóma líkast fuglasöng, jafnvel á fjölsóttri krá um miðja nótt.

„Tvær vikur eru liðnar frá því þriggja vikna ferðalagi mínu til Íslands lauk, ég er heima en á erfitt með að lýsa ástandi mínu. Ég get ekki lengur kennt um flugþreytu eða magnleysi eftir viðburðarríka ferð. Þetta er meira eins og að vera utan líkamans, eins og ég fljóti gegnum venjubundna dagana en um leið finni ég fyrir óbæranlegum söknuði,“ skrifar Arielle á vefsvæði sitt.

Sem áður segir er Arielle af íslenskum ættum og er það í móðurætt. Þetta var fyrsta heimsókn hennar til Íslands og skýrir hún svo frá að í fyrrasumar hafi hún fengið upplýsingar um árlegt rithöfundamót sem haldið er á Íslandi og nefnist Iceland Writers Retreat. Hún hafi ekki gert sér miklar vonir um að fara en þegar Icelandair hóf að fljúga til Edmonton breyttist staðan og hún sló til.

Tók upp álfatrú

„Á Íslandi eru allir listamenn eða mjög áhugasamir um list. Engan hitti ég sem meðfram starfi sínu var ekki rithöfundur, ljóðskáld, listamálari eða tónlistarmaður. Áhugamál mín sem stundum þykja einkennileg heima voru mjög eðlileg á Íslandi,“ segir Arielle. „Ég ber kenndir til Íslands. Ekki aðeins ótrúlegs landslagsins heldur menningarinnar, fólksins og þess litla samfélags sem myndaðist á fjórum stuttum dögum á rithöfundamótinu. Ég er í heimalandi mínu en líður ekki eins og áður.“

Arielle fjallar einnig um næturlífið á Íslandi en íslensk frænka hennar fór með hana á pöbbarölt. Hún var meðal annars mjög ánægð með hversu hrein Reykjavík var orðin strax morguninn eftir næturgesti miðborgarinnar. Sagðist hún hafa tekið upp álfatrú þann morguninn.

Hún birtir einnig myndband Bon Iver við lagið Holocene, segist hafa heyrt lagið oft og séð myndbandið. En eftir heimkomuna hafi hún áttað sig á því að myndbandið hafi verið tekið á Íslandi og að hún hafi heimsótt marga þá staði sem í því bregður fyrir. „Ég felli ekki oft tár yfir tónlistarmyndbönum en yfir þessu geri ég það.“ 

Arielle Demchuck um Íslandsdvölina

Arielle Demchuck um næturlífið á Íslandi 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert