Samstarf við ESB óháð umsókninni

AFP

Evrópusambandið er reiðubúið að taka þátt í samstarfi um afnám gjaldeyrishaftanna hér á landi innan samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES). Þetta kom fram á fundi Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra og Michels Barnier sem fer með málefni inni markaðarins í framkvæmdastjórn sambandsins. Ekki hefur hins vegar komið fram í hverju aðkoma Evrópusambandsins í þeim efnum kann að felast komi til hennar. Evrópusambandið hefur áður lýst yfir vilja til samstarfsvið íslensk stjórnvöld um afnám gjaldeyrishaftanna en árið 2011 barst yfirlýsing þess efnis í tengslum við umsókn Íslands um inngöngu í sambandið.

Aðkoma Evrópusambandsins þá var hins vegar einskorðuð við ráðgjöf en ekki beina aðkomu að málinu í formi aðgerða. Lagði sambandið áherslu á að eftir sem áður yrðu Íslendingar sjálfir að afnema höftin sem gerast yrði áður en Ísland yrði hluti þess. Í kjölfar þess að núverandi ríkisstjórn gerði hlé á umsóknarferlinu í kjölfar þingkosninganna á síðasta ári dró Evrópusambandið sig út úr þessu samstarfi. Samstarf er þó áfram við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í þeim efnum. Ljóst er hins vegar að slíkt samstarf við sambandið er ekki bundið við umsóknina miðað við samskipti Gunnars Braga og Barniers.

Þessar yfirlýsingar Evrópusambandsins eru eðlilegar enda ganga gjaldeyrishöftin gegn frjálsu flæði fjármagns sem gildir á innri markaði sambandsins en EES-samningurinn veitir Íslendingum aðgang að þeim markaði. Hins vegar samrýmast gjaldeyrishöftin samningnum eins og bæði EFTA-dómstóllinn og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafa staðfest enda heimildir í honum fyrir slíkum aðgerðum við aðstæður eins og þær sem sköpuðust hér á landi eftir fall bankanna.

Kýpversku höftin valdið meiri skaða

Hins vegar er Ísland ekki eina ríkið á Evrópska efnahagssvæðinu þar sem fjármagnshöft eru til staðar. Sú er að sama skapi raunin á Kýpur sem er einnig hluti af evrusvæðinu. Þar var komið á höftum í byrjun árs 2013 vegna efnahagserfiðleika eyríkisins. Höftin þar í landi gengu þó mun lengra en hér á landi og sneru ekki aðeins að fjármagnsflæði inn og út úr landinu heldur var einnig komið á víðtækum takmörkunum innanlands sem höfðu mikil áhrif á daglegt líf borgaranna og rekstur fyrirtækja.

Ein helsta ástæðan fyrir þessum ólíku aðstæðum er að Kýpur er með evru sem gjaldmiðil en ekki sjálfstæðan gjaldmiðil. Meðal þess sem íbúar Kýpur bjuggu við var að geta ekki tekið meira en 300 evrur út af bankareikningum sínum dag hvern eða sem nemur um 47 þúsund krónum, geta ekki innleyst ávísanir og geta ekki tekið meira en þrjú þúsund evrur með sér út landi. Einnig var meðal annars komið á takmörkunum á millifærslur á fjármagni innanlands og í tengslum við stofnun nýrra bankareikninga.

Rætt var við Gylfa Magnússon, dósent við Háskóla Íslands, í samtali við fréttavefinn Euobserver.com í apríl á síðasta ári þar sem hann lýsti þeirri skoðun sinni að líklega yrði auðveldara fyrir Kýpverja að afnema sín fjármagnshöft þar sem þeir nytu stuðnings Evrópska seðlabankans. Hins vegar hefðu höftin á Kýpur valdið miklu meiri skaða fyrir efnahagslífið en hér á landi og hugsanlega hefði því verið betra fyrir landið að standa utan evrusvæðisins með sjálfstæðan gjaldmiðil.

Ráðgjöf líklega í boði eins og áður

Markmið stjórnvalda á Kýpur var að afnema fjármagnshöfin í janúar síðastliðnum sem tókst hins vegar ekki og er nú stefnt að því að það geti orðið í lok þessa árs. Hvort það markmið næst á eftir að koma í ljós. Fyrr á þessu ári voru hins vegar tekin skref í þá átt að afnema höftin. Meðal annars varðandi úttektir úr bönkum og ávísanir. Enn er þó óheimilt að stofna nýja bankareikninga vegna viðskipta innanlands. Þá eru öll höft áfram í gildi varðandi viðskipti við útlönd en segja má að Kýpverjar séu þar með komnir í nokkuð hliðstæða stöðu og Íslendingar hvað það varðar.

Haft er eftir Gylfa að svo virtist utanfrá séð sem viðbrögð Evrópusambandsins við efnahagserfiðleikum Kýpur hafi verið handahófskennd og ekki hafi verið stuðst við neina áætlun í þeim efnum. Hver slæm hugmyndin hafi þannig rekið aðra. Evrópusambandið hefur þó ekki eitt komið að málum á Kýpur í kjölfar efnahagserfiðleikanna þar í landi en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur tekið þátt í að veita eyríkinu lán í því sambandi með ströngum skilyrðum um aðhaldsaðgerðir.

Eins og fram kemur í upphafi liggur ekki fyrir í hverju samstarf við Evrópusambandið um afnám gjaldeyrishaftanna hér á landi kunni að felast en gera má ráð fyrir að um ráðgjöf verði að ræða líkt og í boði var í tengslum við umsóknina um inngöngu í sambandið. Að hversu miklu gagni sú ráðgjöf kemur á síðan eftir að koma í ljós.

Peningar
Peningar Wikipedia
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert