Snýr aftur til Íslands, sama hvað

Ein af óteljandi nafnlausum perlum íslenskrar náttúru.
Ein af óteljandi nafnlausum perlum íslenskrar náttúru. mbl.is/Rax

„Dvölin var engu öðru lík og ég tengdi strax við landið, menninguna og fólkið,“ segir Christina Jennings, bandarísk kona, sem kom til Íslands haustið 2013 vegna kvikmyndarinnar Land Ho! sem hún tók þátt í að framleiða. Jennings segist ekki trúa að það hafi tekið hana þrjátíu ár að uppgötva Ísland.

Greint var frá því á mbl.is í gærdag að kanadísk­ur rit­höf­und­ur af ís­lensk­um upp­runa hefði skrifað pistil um þriggja vikna dvöl sína hér á landi í apríl síðastliðnum. Arielle Demchuck kol­féll fyr­ir landi og þjóð og lýsir söknuði sínum þannig að hann sé svo gott sem óbærilegur.

Í kjölfar umfjöllunar mbl.is deildu íslensk ferðaþjónustufyrirtæki frásögn Arielle á samfélagsvefnum Twitter. Ein þeirra sem tók eftir slíku tísti var Christina Jennings, sem býr í Austin í Texasríki í Bandaríkjunum en dvaldi á Íslandi í sex vikur haustið 2013 í tengslum við kvikmyndun Land Ho! sem var að mestu leyti tekin upp hér á landi.

Land Ho! vakti mikla at­hygli á Sund­ance-kvik­mynda­hátíðinni í Banda­ríkj­un­um fyrr á þessu ári en í henni er fjallað um ferðalag tveggja elli­líf­eyr­isþega til Íslands.

Ætlar sér að flytja til Íslands

Jennings ákvað að senda Arielle bréf vegna frásagnar hennar og birtir það á vefsvæði hennar. Jennings segist hafa fellt tár við lesturinn, svo vel skilji hún tilfinningar Arielle. „Mér leið eins og ég væri komin heim og trúði ekki að það hefði tekið mig þrjátíu ár að uppgötva landið. Eftir að ég sneri aftur heim til Bandaríkjanna reyndi ég hvað ég gat að halda áfram með líf mitt hér í Austin (sem ég hafði áður litið á sem mitt sanna heimili) en ég gat ekki hrist af mér þá djúpu þrá að vilja vera á Íslandi. Frá þeim tíma hef ég unnið að áætlun um að flytja þangað. Ef allt gengur eftir mun ég sækja landið heim í sumar, en það er sama hvað, ég mun snúa aftur einhvern daginn.“

Að lokum þakkaði hún Arielle fyrir að færa í orð þessar tilfinningar og segir ljóst að Ísland sé að seiða þær til sín með söng sínum.

Arielle Demchuck um Íslands­dvöl­ina

Arielle Demchuck um næt­ur­lífið á Íslandi 

Kvikmyndin Land Ho! gerist á Íslandi.
Kvikmyndin Land Ho! gerist á Íslandi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert