Grunnskólakennarar skrifuðu undir

Skrifað var undir kjarasamning grunnskólakennara í kvöld.
Skrifað var undir kjarasamning grunnskólakennara í kvöld. mbl.is/Eggert

Fulltrúar grunnskólakennara skrifuðu undir nýjan kjarasamning við Samband íslenskra sveitarfélaga nú um tíuleytið í kvöld í húsakynnum ríkissáttasemjara.

Nú er því ljóst að ekki verður af boðaðri vinnustöðvun grunnskólakennara á morgun.

Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Samband íslenskra sveitarfélaga, segir að samningurinn nái til loka ársins 2016.

„Þarna erum við að gera grundvallarbreytingar á vinnutímaákvæðum sem við trúum að verði skólastarfinu sem og kennurum, bæði þeirra launakjörum og vinnuumhverfi, mikil lyftistöng,“ segir hún í samtali við mbl.is.

„Það er búið að vera að vinna að þessu í mörg ár. Það má segja að þessi lota hafi staðið yfir frá árinu 2011 og það er búin að fara fram gríðarleg greiningarvinna og undirbúningur fyrir þennan samning sem er að skila sér með þessari undirritun í kvöld.

Ég held að það sé almenn sátt um þessa niðurstöðu,“ segir hún jafnframt.

Tæp­lega 43 þúsund börn eru í grunn­skól­um lands­ins og er því óhætt að segja að áhrifa vinnustöðvunar grunnskólakennara hafi gætt víða í samfélaginu.

Þarf samþykki félagsmanna

Grunnskólakennarar lögðu fyrst niður störf þann 15. maí síðastliðinn og höfðu boðað vinnustöðvun aftur á morgun, 21. maí. Þriðja vinnu­stöðvun­in var áætluð 27. maí næst­kom­andi. 

Gott hljóð hef­ur verið í full­trú­um grunn­skóla­kenn­ara og viðsemj­enda þeirra að und­an­förnu. Kjaradeilan hefur verið bæði löng og ströng og hafa deilendur fundað margoft undir stjórn ríkissáttasemjara.

Bera þarf samninginn undir atkvæði félagsmanna Félags grunnskólakennara. Hann verður fyrst kynntur trúnaðarmönnum sambandsins og síðan almennum félagsmönnum.

Grunnskólakennarar skrifuðu undir kjarasamning í kvöld.
Grunnskólakennarar skrifuðu undir kjarasamning í kvöld. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert