Mágur, föðurímynd og andlegur leiðtogi

„Hann var mágur minn, föðurímynd, forstöðumaður og andlegur leiðtogi.“ Þannig lýsti Sigríður Guðnadóttir sambandi sínu við Gunnar Þorsteinsson, sem jafnan er kenndur við Krossinn. Sigríður sakar Gunnar um að hafa brotið gegn sér þegar hún var fjórtán ára og ítrekað eftir það.

Aðalmeðferð í meiðyrðamáli Gunnars hófst í morgun en málið höfðaði Gunnar á hend­ur tveim­ur kon­um, fyrr­ver­andi rit­stjóra Press­unn­ar og út­gáfu­fé­lagi Press­unn­ar vegna frétta­flutn­ings af kon­um sem sökuðu Gunn­ar um kyn­ferðis­brot. Óhætt er að segja að gusurnar hafi gengið yfir Gunnar eftir hádegið þegar flestar konurnar sem sökuðu hann um kynferðisofbeldi báru vitni.

Ein þeirra var Sigríður Guðnadóttir, sem var mágkona Gunnars. Áður hafði systir hennar gefið vitnisburð sinn. Sigríður lýsti brotum Gunnars þannig að þau höfðu aðallega verið káf, hann hafi farið undir bol sinn. Þetta hafi hafist þegar hún var fjórtán ára og gerst ítrekað eftir það. „Hann var síklípandi og stelandi einhverjum kossum.“

Einnig sagði hún að Gunnar hefði verið gjarn á að gera grín að henni, segja hana með lítil brjóst, stórt nef og að hún væri lágvaxinn. Það hafi hann meðal annars gert í prédikunum. „Hann sagði kannski að nef þýddi von og benti svo á mig og sagði: „Þarna sjáið þið hvað Sigga er með mikla von.““

Þrátt fyrir að Gunnari hafi brotið á henni leitaði Sigríður mikið til hans. „Ég var undir hælnum á þessum manni. [...] Mér þótti rosalega vænt um hann og leit upp til hans. [...] Þótt hann hafi brotið á mér þá þótti mér vænt um hann.“

Eins og aðrar konur sem gefið hafa skýrslu í dag sagði Sigríður að aldrei hafi staðið til að fara með málið í fjölmiðla. „Ég talaði aldrei við Gunnar [eftir að konurnar hópuðu sig saman]. Maðurinn minn talaði við hann og fullvissaði hann um að við værum ekki að fara í blöðin. Þetta átti aldrei að fara lengra, en þau fóru af stað þrátt fyrir það,“ sagði hún og vísaði til viðtals við Jónínu Benediktsdóttur í Fréttatímanum í nóvember 2010.

Aðalmeðferð málsins heldur áfram í fyrramálið en þá fer fram munnlegur málflutningur.

Frétt­ir mbl.is af aðalmeðferðinni:

Svo falleg að henni yrði nauðgað

„Dreg­in inn í málið af Jón­ínu“

Vildi smakka á brjóstamjólk mág­konu

Ein geðveik og önn­ur súlu­dans­mær

Hrædd­ar vegna áreit­is Gunn­ars

Rek­ur málið til hjóna­bands síns

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert