Andlát: Ásgerður Búadóttir

Ásgerður Búadóttir.
Ásgerður Búadóttir.

Ásgerður Ester Búadóttir listvefari lést aðfaranótt mánudags, 93 ára að aldri. Ásgerður fæddist í Borgarnesi 4. desember 1920, og var næstyngst fimm barna þeirra Ingibjargar Teitsdóttur og Búa Ásgeirssonar frá Stað í Hrútafirði.

Þriggja ára gömul fluttist Ásgerður með foreldrum sínum til Reykjavíkur, þar sem hún ólst upp og gekk í skóla. Árið 1942 innritaðist hún í hinn nýstofnaða Handíða- og myndlistarskóla og stundaði síðan framhaldsnám við Konunglega listaakademíið í Kaupmannahöfn 1946-49.

Fljótlega eftir komuna til baka til Íslands byrjaði hún að vinna með listvefnað og 1956 vann hún gullverðlaun á alþjóðlegu lista- og handverkssýningunni í München. Þar byrjaði ferill hennar sem listvefara sem hún fylgdi úr hlaði með sýningum 1958, 1962 og 1964.

Alls hélt Ásgerður 15 einkasýningar og tók þátt í um 70 samsýningum hér á landi og víða um heim. Síðasta stóra yfirlitssýningin á verkum hennar fór fram á Listasafni Íslands 1994, og síðasta einkasýningin var haldin í anddyri Hallgrímskirkju 2007. Sama ár kom út bókin „Veftir“ um ævi hennar og listamannaferil.

Verk Ásgerðar má finna á söfnum hérlendis, á Norðurlöndunum og í Bandaríkjunum, og á fjöldamörgum opinberum stofnunum. Forseti Íslands sæmdi hana fálkaorðunni árið 1993 og frá 1995 voru henni veitt heiðurslaun íslenskra listamanna af Alþingi.

Ásgerður var gift Birni Th. Björnssyni, listfræðingi og rithöfundi, sem lést 2007. Þau eignuðust börnin Baldvin Björnsson, f. 1947, Björn Þránd Björnsson, f. 1952, og Þórunni Björnsdóttur Bacon, f. 1968.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert