Leggjast gegn sameiningu heilbrigðisstofnana

Heilbrigðisstofnun Þingeyinga.
Heilbrigðisstofnun Þingeyinga. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Framsóknarfélag Þingeyinga krefst þess af heilbrigðisráðherra og heilbrigðisyfirvöldum að falla frá fyrirhugaðri sameiningu heilbrigðisstofnana á Norðurlandi í eina. Annað er og verður með öllu óásættanlegt, segir í tilkynningu frá félaginu.

Þar segir að heilbrigðisráðuneytið telji að „litlar og stakstæðar heilbrigðisstofnanir [standi] veikar á þessum tímum“ og því sé brýnt að endurskipuleggja heilbrigðisþjónustu á lansdbyggðinni til þess að tryggja þá grunnþjónustu sem íbúarnir þurfa.

Í ályktun framsóknarfélagsins segir hins vegar að ekki hafi verið sýnt fram á fjárhagslegan ávinning með þessari sameiningu enda hafi það ekki verið markmiðið. „Nýlega hlaut Heilbrigðisstofnun Þingeyinga sæmdarheitið Fyrirmyndarstofnun árið 2014 á vegum SFR. Stofnunin er vel rekin og skilaði hagnaði á síðasta ári,“ segir í ályktuninni.

„Hvernig má það vera að með því að draga úr mætti og gæðum Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga aukist sjálfstæði hennar, stjórn verði styrkari og þjónustan við íbúana hagkvæmari og betri, öruggari og sveigjanlegri? Þessi rök standast enga skoðun enda hefur enginn sýnt fram á hagræðinguna né fullvissað íbúa í Þingeyjarsýslum að þjónustan við þá verði betri og öruggari,“ segir jafnframt í ályktuninni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert