Bokova hrósaði framlagi Vigdísar

Irina Bokova, aðalframkvæmdastjóri Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO), og Gunnar Bragi …
Irina Bokova, aðalframkvæmdastjóri Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO), og Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra. Ljósmynd/Utanríkisráðuneytið

Irina Bokova, aðalframkvæmdastjóri Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO), hrósaði í dag framlagi Vigdísar Finnbogadóttur til UNESCO. Vigdís er velgjörðarsendiherra UNESCO fyrir tungumál og hefur um árabil gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir stofnuna.

Bokova fundaði með Gunnari Braga Sveinssyni utanríkisráðherra í dag. Á fundinum þakkaði Gunnar Bragi aðalframkvæmdastjóranum meðal annars fyrir stuðning hennar við Alþjóðlega tungumálamiðstöð Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands. Stofnunin hlaut í nóvember 2011 samþykki til að starfa undir formerkjum UNESCO,

Gunnar Bragi lagði jafnframt áherslu á mikilvægi menntunar í þróunarsamvinnu Íslands, einkum menntunar kvenna og stúlkna. Hann sagði Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna gegna mikilvægu hlutverki í þróunarsamvinnunni og vakti jafnframt athygli á árangursríku starfi Jarðhitaskólans, Sjávarútvegsskólans og Landgræðsluskólans.

Gunnar Bragi sagði Íslendinga hafa mikla reynslu og sérfræðiþekkingu á þessum sviðum sem mikilvægt væri að nýta, meðal annars með því þjálfa og tengja námsmenn og sérfræðinga víðs vegar að úr heiminum og efla rannsóknir á þessum sviðum.

Þá sagði Gunnar Bragi það skipta miklu máli fyrir Ísland og Íslendinga að Þingvellir og Surtsey væru á heimsminjaskrá. Það styrkti menningarlegt og náttúrufræðilegt gildi þessara staða og efldi um leið vitund almennings á Íslandi um starfsemi UNESCO.

Utanríkisráðherra lagði einnig áherslu á mikilvægi þess að hagræða í starfsemi alþjóðastofnana og aðlaga þær að breyttum tímum, en Irina Bokova hefur undanfarin ár stjórnað miklu umbótaferli í UNESCO sem hófst í kjölfar heildarúttektar sem gerð var á starfsemi og rekstri stofnunarinnar 2010. Rætt var um mikilvægi tækninnar og áhrif samfélagsmiðla á öllum starfssviðum UNESCO, að því er segir í tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert