Ekki hannaðir fyrir neyðarumönnun

Sjúkrabíll - Nýir bílar eru á leiðinni til landsins
Sjúkrabíll - Nýir bílar eru á leiðinni til landsins mbl.is/Hjörtur

Útboð fór nýlega fram til kaupa á 16-20 nýjum sjúkraflutningabílum sem eru nú á leiðinni til landsins. Vissar áhyggjur eru meðal sjúkraflutningamanna um ágæti nýju bílanna.

„Málið er á viðkvæmu stigi. Nýju bílarnir bjóða upp á fátt annað en sjúkraflutninga þar sem er illmögulegt að sinna sjúklingum, þannig að viss óánægja ríkir um kaupin,“ sagði Njáll Pálsson, formaður fagdeildar sjúkraflutningafólks. 

„Við erum að vinna í að finna viðhlítandi lausn á málinu í samráði við þá sem fjármagna kaup bílanna, ríkið, þá sem eiga þá og reka, sem er Rauði kross Íslands, og rekstraraðilana eins og Slökkviliðið.“

Minni sjúkrabílar

Gömlu bílarnir eru af Benz Sprinter-gerð og eru stærri en þeir nýju, sem eru frá Volkswagen. „Þeir eru flottir hvað það varðar að þeir eru sérhannaðir sem sjúkrabílar í verksmiðju, en bara til sjúklingaflutninga en ekki í neyðarumönnun sjúklinga,“ sagði Páll.

Aðspurður sagði hann að sjúkraflutningamenn virtust heldur hallari undir gömlu bílana en þá nýju.

„Góð samvinna og samtal milli ríkis, Rauða krossins, rekstraraðila og þeirra sem eru að sinna þjónustunni er mikilvæg í svona málum. Það þarf að vera taktviss, samstíga dans en það hefur orðið smá misbrestur á því í þessu tilfelli,“ tók hann fram en bætti við að of miklar yfirlýsingar gætu reynst skaðlegar á þessu stigi málsins.

„Við sjáum fram á að leysa úr þessu núna í þessum mánuði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert