Hálendið er enn ekki tilbúið

Frá hálendi Íslands.
Frá hálendi Íslands. mbl.is/Landsbjörg

Ferðaklúbburinn 4x4 hvetur alla í ferðamannaþjónustu, erlenda ferðamenn á eigin vegum og ferðamenn almennt, til að aflýsa á næstunni öllum ferðum á og við hálendi Íslands og virða allar ákvarðanir Vegagerðarinnar um lokanir á fjallvegum. Þetta á sérstaklega við núna þegar snjóalög hafa verið óvenjuleg á hálendinu og vegir og slóðar ekki tilbúnir að taka á móti umferð.

„Ferðaklúbburinn hefur í störfum sínum undanfarin 20 ára lagt áherslu á fræðslu til almennings, að merkja slóða og berjast gegn utanvegaakstri með mjög góðum árangri. Það er óviðunandi að sjá árangurinn af því starfi í hættu núna vegna ásóknar ferðaþjónustuaðila í að selja ferðir á hálendið,“ segir Sveinbjörn Halldórsson, formaður klúbbsins, í fréttatilkynningu.

Sveinbjörn ítrekar að mikilvægt sé að góð veðurspá næstu daga verði ekki til þess að ferðamenn freistist til að aka inn á hálendið. „Það eru enn nokkrir dagar í að Vegagerðin tilkynni um opnanir á algengum leiðum. Það eru bara krapi, skaflar, skörð í vegum og óskýrir slóðar þarna uppfrá og við verðum enn að bíða átekta áður en við komust í fjalladýrðina,“ segir formaður Ferðaklúbbsins 4x4. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert