„Þetta eru alvarleg brot“

Sigurður G. Guðjónsson
Sigurður G. Guðjónsson Friðrik Tryggvason

„Við höfum verið að ræða þetta lögmenn sem voru hleraðir og það á eftir að skoða þetta betur og nákvæmlega,“ segir Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður, um þá staðhæfingu dómara í Imon-málinu að sérstakur saksóknari hafi brotið lög þegar hlustað var á sím­töl sak­born­inga og verj­enda þeirra og þegar upp­tök­um sím­tal­anna var ekki fargað.

Fjölskipaður héraðsdómur í málinu lét þess getið í niðurstöðu dómsins að rann­sókn­araðgerðir sérstaks saksóknara, eins og að þeim var staðið, fælu í sér brot gegn tilteknum ákvæðum laga um meðferð saka­mála.

Sigurður segir mjög mikilvægt að fá þetta fram í dómi og raunar grundvallaratriði. Hann og Helga Mel­korka Ótt­ars­dótt­ir, sem einnig sinnti verjendastörfum í Imon-málinu, gerðu athugasemd við rannsóknaraðgerðir sérstaks saksóknara í greinargerðum sínum og við munnlegan málflutning við aðalmeðferð málsins. Fjölskipaður dómur féllst á röksemdir þeirra og lét þess sérstaklega getið í dómnum.

Rannsóknaraðgerðir sem þessar einskorðast ekki við Imon-málið og segir Sigurður að þetta snerti ansi marga lögmenn og oftsinnis hafi verið kvartað yfir þessu. Þess vegna sé mjög gott að fá þetta fram í dómnum. Nú verði þeir lögmenn sem þetta snertir að ráða ráðum sínum áður en næstu skref verða tekin. „Það er ljóst að þetta eru alvarleg brot.“

Afhentu gögn sem átti að vera búið að eyða

Annað atriði hefur einnig komið í ljós við meðferð hinna svokölluðu hrunmála fyrir dómstólum en það eru símtalaskrár sem sérstakur saksóknari aflaði hjá símafyrirtækjum. Sigurður segir að þau nái mörg ár aftur í tímann en hefði samkvæmt lögum átt að eyða þegar þau voru sex mánaða göm­ul.

Í símtalaskránum má sjá hver hringdi í hvern og á hvaða tíma. Sigurður segir að sérstakur saksóknari hafi búið til sögur um refsiverða háttsemi og meðal annars byggt á þessum gögnum máli sínu til stuðnings, gögnum sem áttu ekki að vera til.

Skemmst er að minnast þess að í janúar síðastliðnum sendi Vodafone frá sér yfirlýsingu vegna þess að fyrirtækið veitti lög­reglu upp­lýs­ing­ar um sím­notk­un ein­stak­lings sem var til rann­sókn­ar hjá lög­reglu. Beiðni lögreglu var send árið 2012 en upplýsingarnar vörðuðu símtöl á árinu 2007. Þeim hefði því með réttu átt að hafa verið eytt fimm og hálfu ári áður en beiðnin barst.

Frétt mbl.is: Sérstakur saksóknari braut lög

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert