Hjólaði 320 km og gekk á Hnjúkinn

Ólafur Baldursson og kona hans, Hulda Harðardóttir.
Ólafur Baldursson og kona hans, Hulda Harðardóttir. Mynd/Ólafur Már Björnsson

„Þetta var alveg stórkostlegt í þessu veðri og landið skartaði sínu fegursta,“ segir Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga á Landspítalanum, en hann gerði sér lítið fyrir síðasta föstudag og hjólaði í einum rykk 320 km leið austur í Skaftafell og gekk á topp Hvannadalshnúks. 

Straumurinn á topp Hvannadalshnúks var stríður þessa hvítasunnuhelgi og fengu göngumenn ákjósanlegt veður. Ólafur gekk ásamt konu sinni, Huldu Harðardóttur, og stórum hópi undir leiðsögn Íslenskra fjallaleiðsögumanna. 

„Ég lagði af stað á föstudagsmorgun um fimmleytið. Eftir að hafa stoppað stutt á Selfossi og svo á Hvolsvelli hjólaði ég austur í Vík, þar sem konan mín hitti mig á bílnum. Hún fylgdi mér svo í Skaftafell og var ég kominn þangað um hálfníuleytið. Þar sváfum við í fjóra klukkutíma og svo vorum við komin í Sandfell, þar sem gangan hófst um klukkan fjögur um nótt, og hittum þar hópinn undir leiðsögn Íslenskra fjallaleiðsögumanna,“ segir Ólafur. 

Fólk reif sig úr fötunum í 2.000 metra hæð

Ólafur er vanur fjallgöngumaður en segist aldrei hafa upplifað Hnúkinn í álíka veðri. „Þetta er í áttunda sinn sem ég geng á fjallinu og í sjötta sinn sem ég fer á tindinn en ég hef aldrei áður séð neitt þessu líkt. Ég hef verið þarna í góðu veðri áður, jafnvel mjög góðu, en það var ekkert í líkingu við þetta. Það var logn nánast allan tímann og ég gat eiginlega bara verið á bolnum. Fólk var farið að rífa sig úr fötunum í 2.000 metra hæð. Ég var alveg gapandi hissa,“ segir Ólafur. 

Endurminningarnar helltust yfir hann

Hópurinn sem gekk á Hvannadalshnúk var fjölbreyttur. Meðal annars voru þar þrír Bretar og tveir Svisslendingar. Í hópnum var einnig Tómas Andri Ólafsson, 10 ára göngugarpur. 

„Það var ofboðslega gaman að ganga með þeim dreng. Ég fór fyrst á Hvannadalshnúk árið 1978 þegar ég var 14 ára og gekk sú ferð mjög vel. Það var því gaman að fylgjast með Tómasi ganga, það hrúguðust á mig endurminningarnar frá minni fyrstu ferð. Gangan upp var nógu mikil upplifun í sjálfu sér, og svo bættist þetta ofan á.“ 

Félagsskapurinn skiptir máli

Ferðin upp á topp gekk vel þrátt fyrir að Ólafur hefði að baki um 15 tíma hjólreiðaferð. „Mér leið vel eftir hjólaferðina og ég passaði sérstaklega vel upp á næringuna. Ég hefði líka ekki átt möguleika í þetta nema með stuðningi frá Huldu. Ég var þreyttari en venjulega en tók þetta bara jafnt og þétt. Félagsskapurinn í göngunni var líka ekki af verri endanum, og Jono og María hjá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum voru frábær.“

Hjólreiðarnar eru annað áhugamál Ólafs og hefur hann töluverða reynslu af löngum hjólaferðum. „Ég stundaði fjallgöngur mikið þegar ég var yngri og var það þá mín aðalíþrótt. Svo undanfarin 10 ár hafa hjólreiðarnar tekið við. Ég hjólaði umhverfis landið árið 2012 og hef þrisvar tekið þátt í Vätternrundan sem er 300 km hjólreiðakeppni sem fer fram í Svíþjóð ár hvert,“ segir Ólafur. 

Vildi upplifa Hnúkinn með konunni

Spurður hvernig honum hafi dottið í hug að sameina þessi tvö áhugamál segir Ólafur tvær ástæður fyrir því. „Ég verð fimmtugur núna í sumar og af því tilefni langaði mig að blanda saman þessum tveimur uppáhaldsíþróttum mínum. Síðan er það svo að við hjónin höfum aldrei farið saman á Hvannadalshnúk. Við höfum farið hvort um sig en okkur langaði að upplifa þetta saman.“

Ekki mátti miklu muna að ekkert yrði úr ferðinni nú í vor. „Allan maímánuð höfðum við verið að bíða eftir vestanátt, sem er besta áttin til þess að byrja í, en hún bara kom ekkert og svo var þetta síðasta mögulega helgin. Þá kom allt í einu þessi fínasta veðurspá og við gátum látið drauminn rætast,“ segir Ólafur. 

Tómas Andri Ólafsson og Ólafur Baldursson
Tómas Andri Ólafsson og Ólafur Baldursson Mynd/Ólafur Már Björnsson
Mynd/Ólafur Baldursson
Hópurinn sem gekk á Hvannadalshnjúk.
Hópurinn sem gekk á Hvannadalshnjúk. Mynd/Ólafur Már Björnsson
Mynd/Ólafur Baldursson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert