Ætluð brot fyrndust fyrir einu og hálfu ári

Ríkissaksóknari segir að ekki sé efni til að rannsaka frekar ætluð brot starfsmanna embættis sérstaks saksóknara varðandi hlustanir á símtölum verjenda og sakborninga í Imon-málinu enda ætluð brot fyrnd. 

Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari segir í svari við fyrirspurn mbl.is, að það sé rétt að þau tilvik sem upp hafi komið í málum sérstaks saksóknara varðandi hlustanir á símtölum verjenda og sakborninga séu ekki í samræmi við ákvæði laga um meðferð sakamála. Hún tekur jafnframt fram, að ekki hafi verið byggt á símtölum á milli verjenda og sakborninga af hálfu sérstaks saksóknara, þ.e.a.s. þau hafi ekki verið sönnunargögn í sakamálinu. 

Í Imon-málinu voru ákærð Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, Sigríður Elín Sigfúsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans, og Steinþór Gunnarsson, fyrrverandi forstöðumaður verðbréfamiðlunar bankans, fyrir umboðssvik og markaðsmisnotkun. Saksóknari krafðist fimm ára fangelsis yfir Sigurjóni og fjögurra ára fangelsis yfir Sigríði Elínu og Steinþóri.

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði Sigurjón og Sigríði Elínu af öllum kröfum en sakfelldi Steinþór fyrir að tilkynna viðskipti til Kauphallarinnar sem ekki var búið að fjármagna.

Bar að láta af símhlustun og farga upptökum

Í dómi héraðsdóms segir eftirfarandi um hlustun símtala á milli verjenda og sakborninga:

„Við rannsókn málsins, og máls þess sem rekið er undir málsnúmerinu S-207/2013, fékk embætti sérstaks saksóknara heimild með dómsúrskurði til að hlusta á og taka upp símtöl ákærðu á tímabili í janúar og febrúar 2011, samkvæmt 81. gr., sbr. 83. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Fram er komið að þegar ákærðu og verjendur þeirra fengu aðgang að upptökum vegna símhlustana, eftir að ákæra hafði verið gefin út, var þar að finna upptökur símtala sem ákærðu Sigurjón og Sigríður Elín höfðu átt við verjendur sína vegna rannsóknar málsins. Með vísan til 1. mgr. 36. gr. laga um meðferð sakamála bar rannsakanda að láta af símhlustun og stöðva upptöku þegar ljóst var að um var að ræða samtal milli ákærðu og verjenda þeirra. Samkvæmt lokamálslið 1. mgr. 85. gr. sömu laga bar jafnframt að farga upptökum símtalanna þegar í stað. Hvorugt var gert og fólu framangreindar rannsóknaraðgerðir, eins og að þeim var staðið, í sér brot gegn tilvitnuðum ákvæðum laga um meðferð sakamála.“

Sigríður bendir á, að embættið hafi þegar haft til meðferðar erindi verjanda Sigríðar Elínar Sigfúsdóttur [sjá viðhengi], en það barst 1. nóvember 2013. Hún segir að embættið hafði ekki fengið um það upplýsingar fyrr en með dómi héraðsdóms að einnig hefði verið um að ræða upptökur á símtölum verjanda Sigurjóns Árnasonar.

Ekki augljóst að um stórfellt gáleysi hafi verið að ræða

Þá tekur Sigríður fram, að ákvæði 1. mgr. 36. gr. og 1. mgr. 85. gr. sakamálalaga séu ekki refsiákvæði. Hins vegar gat sú handvömm þeirra sem unnu með hlustunargögnin verið heimfærð undir 131. gr. almennra hegningarlaga, en það ákvæði hljóðar svo:

„Ef opinber starfsmaður, sem í 130. gr. eða 131. gr. getur, gætir ekki af ásetningi eða stórfelldu gáleysi lögmætra aðferða við meðferð máls eða úrlausn, handtöku, hald, leit, fangelsan eða framkvæmd refsingar eða við beitingu annarra áþekkra úrræða, þá skal hann sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári, nema brot hans varði þyngri refsingu að lögum.“

Sigríður segir að hér sé tvennt sem þurfi að líta til. Í fyrsta lagi þurfi að vera um stórfellt gáleysi að ræða og í öðru lagi sé refsiramminn 1 ár sem þýði að sökin fyrnist á tveimur árum, sbr. 1.mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga. „Ef litið yrði svo á að um stórfellt gáleysi hafi verið að ræða, sem er ekki augljóst, þá er staðan sú að ætluð brot fyrntust í ársbyrjun 2013,“ segir í svari Sigríðar.

„Þegar af þeirri ástæðu eru ekki efni til að rannsaka frekar ætluð brot enda kemur ekki til álita að sækja neinn til saka fyrir þau, sbr. 1. mgr. 53. gr. laga um meðferð sakamála:

„Markmið rannsóknar er að afla allra nauðsynlegra gagna til þess að ákæranda sé fært að ákveða að henni lokinni hvort sækja skuli mann til sakar, svo og að afla gagna til undirbúnings málsmeðferð fyrir dómi“,“ skrifar Sigríður.

Standa frammi fyrir ýmsum vandamálum

Þá bendir hún á, að það sé rétt að þau tilvik sem hafa komið upp í málum sérstaks saksóknara varðandi hlustanir á símtölum verjenda og sakborninga séu ekki í samræmi við ákvæði laga um meðferð sakamála. Sigríður segir að ríkissaksóknari hafi m.a. brugðist við þessu með því að ítreka það sérstaklega í tveimur bréfum sínum til allra lögreglustjóra og sérstaks saksóknara, dags. 3. júní 2013 og 15. apríl 2014, sem varða eftirlit ríkissaksóknara með hlustunum á grundvelli fyrirmæla nr. 1/2012, að eyða skuli þegar í stað upptökum með samskiptum sakbornings og verjanda, enda komi það skýrt fram í 1. mgr. 85. gr. laga um meðferð sakamála.

Sigríður tekur fram, að það sem verði að hafa í huga varðandi framkvæmd símahlustana sé að í málum sem þessum sé ekki hlustað á upptökur í rauntíma, þ.e. símtöl séu tekin upp og hlustað á þau síðar. Það sé því erfitt að framkvæma það sem dómurinn segi að hefði átt að gera, þ.e. að „stöðva upptöku þegar ljóst var að um var að ræða samtal milli ákærðu og verjenda þeirra.“

Þá er það að sögn Sigríðar annað vandamál sem við er að glíma varðandi hlustanir, að listar yfir símanúmerin sem hringt er í og úr því númeri sem dómari hafi heimilað að hlusta, koma eftir á frá símafélögum, þ.e. þau fylgja ekki skránni sem verði til þegar hringt sé inn eða út. Lögreglumenn geti því t.d. ekki verið með símanúmer verjandans skráð hjá sér og stoppað þegar þau koma upp – ef þeir sitja við og hlusta í rauntíma – þar sem númerin birtist ekki. Ekki sé heldur sjálfgefið að þeir sem hlusti átti sig á því um leið að um símtal á milli verjanda og sakbornings sé að ræða.

„Þá er rétt að undirstrika að ekki var byggt á símtölum á milli verjenda og sakborninga af hálfu sérstaks saksóknara, þ.e. þau voru ekki sönnunargögn í sakamálinu. Eins og gefur að skilja hefur ríkissaksóknari ekki upplýsingar um hvað kom fram í þessum símtölum og þá hvort þar var rætt um eitthvað sem varðaði sakamálið sem var til rannsóknar, en verjendurnir vita það að sjálfsögðu,“ segir í svari Sigríðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert