Ekki fleiri leynifundir í borgarstjórn

Það var 18 stiga hiti og sól þegar nýr borgarstjórnarmeirihluti …
Það var 18 stiga hiti og sól þegar nýr borgarstjórnarmeirihluti var kynntur í iðagrænum Elliðaárdalnum. mbl.is/Styrmir Kári

Sólin brosti við nýrri borgarstjórn Reykjavíkur, þegar samstarfssáttmáli Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, VG og Pírata var kynntur í Elliðaárdalnum nú síðdegis.

Svo virðist sem oddvitar allra flokkanna fjögurra fái eitthvað fyrir sinn snúð, en Dagur B. Eggertsson verður borgarstjóri „öllum að óvörum“ eins og S. Björn Blöndal orðaði það svo pent. Dagur lagði áherslu á að þótt hann bæri titilinn borgarstjóri þá væru þau einn hópur sem stefndi að góðri samvinnu.

„Við sem myndum meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur komum úr ólíkum áttum en stefnum nú að sama markmiði,“ segir í inngangi samstarfssáttmálans. „Með hreinskilni og heiðarleika að leiðarljósi ætlum við að læra hvert af öðru og mynda heild sem er auðugri en summa okkar samanlögð. Við viljum leggja okkar af mörkum til að búa til borg í þessum sama anda. Með flóknara og hraðara samfélagi og aukinni fjölmenningu viljum við frekar huga að því sem sameinar okkur en að ala á sundrungu.“

Píratinn leiðir nýtt lýðræðisverkefni

Björn Blöndal, oddviti Bjartrar framtíðar, verður formaður borgarráðs en Sóley Tómasdóttir, oddviti VG, verður forseti borgarstjórnar. Oddviti Pírata, Halldór Auðar Svansson, mun leiða nýtt lýðræðisverkefni í borginni, sem formaður svo kallaðrar stjórnkerfis- og lýðræðisnefndar.

Í samstarfssáttmálanum segir að gagnsæi og aukið íbúðalýðræði sé eitt af meginverkefnum kjörtímabilsins. Hin nýstofnaða nefnd sem Halldór leiðir mun hafa það hlutverk að finna og þróa leiðir til að opna stjórnkerfi og bókhald borgarinnar og auka þátttöku íbúa í ákvarðanatöku.

Beita sér fyrir uppbyggingu þúsunda íbúða

Þá virðist sátt hafa náðst um að hrinda í framkvæmd einu meginkosningaloforði Samfylkingarinnar, um uppbyggingu 2.500 - 3.000 leigu- og búseturéttaríbúða. Í samstarfssáttmálanum segir að þetta verði gert á næstu 3-5 árum og verði blanda alls konar íbúða, bæði almennra íbúða fyrir einstaklinga og fjölskyldur, stúdentaíbúða, og íbúða fyrir fatlað fólk, heimilislausa og eldra fólk.

Hvað skipulagsmál varðar segir að nýja aðalskipulagið sem samþykkt var á síðasta kjörtímabili verði leiðarljós. Hverfisskipulag verði unnið í nánu samráði við íbúa og segist borgarmeirihlutinn vilja „efla hverfisvitund í öllum hverfum“.

Þá vill borgarstjórn efla BSÍ sem samgöngumiðstöð og sömuleiðis vinna að eflingu strætó, auknum forgangi almenningssamgangna í umferðinni og áframhaldandi uppbyggingu hjólastíganets, í samræmi við hjólastígaáætlun.

Námsgjöld leikskóla lækkuð

Markmið Vinstri grænna um að vinna í nokkrum skrefum að gjaldfrjálsum leikskóla í Reykjavík virðist ekki hafa fengið hljómgrunn hinna flokkanna, því það skilar sér ekki í samstarfssáttmálann. 

Hinsvegar er stefnt að því að samræma og einfalda gjaldskrár. Fjármagn til skóla- og frístundasviðs verður aukið um 100 milljónir kr á næsta ári og árið 2016 verða settar 200 milljónir kr til viðbótar til lækkunar á námsgjöldum í leikskólum. 

Einnig verða teknir upp systkinaafslættir, þvert á skólastig, og frístundakort hækkað um 5000 kr á barn hvort ár.

Nýr meirihluti í borgarstjórn Reykjavíkur valdi Elliðaárdalinn til að kynna …
Nýr meirihluti í borgarstjórn Reykjavíkur valdi Elliðaárdalinn til að kynna samstarfssamning sinn í dag. mbl.is/Styrmir
Nýr meirihluti í borgarstjórn Reykjavíkur valdi Elliðaárdalinn til að kynna …
Nýr meirihluti í borgarstjórn Reykjavíkur valdi Elliðaárdalinn til að kynna samstarfssamning sinn í dag. mbl.is/Styrmir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert