Hefði ekki átt að fara í fjölmiðla

Jón Steinar Gunnlaugsson.
Jón Steinar Gunnlaugsson. Morgunblaðið/Kristinn

Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi Hæstaréttardómari, segir að Sverrir Ólafsson, bróðir athafnamannsins Ólafs Ólafssonar, hafi ekki verið vanhæfur til að taka sæti sem meðdómari í Aurum-málinu svonefnda. Engu breyti um vanhæfi þótt Ólafur hafi verið dæmdur í öðru máli sérstaks saksóknara.

Rætt var við Jón Steinar og Svein Andra Sveinsson hæstaréttarlögmann í morgunútvarpi Ríkisútvarpsins í morgun. Jón Steinar hóf mál sitt á að viðra þá skoðun sína að honum fyndist athugavert af Ólafi Þór Haukssyni, sérstökum saksóknara, að ræða ættartengslin við fjölmiðla eftir að dómurinn var kveðinn upp. „Ef hann taldi að þessi maður væri vanhæfur til þess að fjalla um málið þá átti hann bara, kannski áfrýjar hann dóminum, að bera það upp við Hæstarétt í málflutningi.“

Jón Steinar sagði það ekki samboðið sérstökum saksóknara að fara með mál sem þetta í fjölmiðla. „Eru menn að reyna að skapa eitthvert ástand sem hefur áhrif á dómstólana og niðurstöðu þeirra? Mér finnst að saksóknarinn hefði ekki átt að gera það.“

Þá sagði Jón Steinar að í sínum huga væri ljóst að Sverrir Ólafsson hefði ekki verið vanhæfur til að fjalla um Aurum-málið. Engu breytti þótt Ólafur Ólafsson, bróðir hans, hefði verið dæmdur í Al-Thani-málinu. „Skyldleiki við mann sem er dæmdur í allt öðru máli getur ekki skipt máli varðandi vanhæfi, það væri aldeilis langt gengið,“ sagði Jón Steinar og bætti við að hann reiknaði með að mjög margir dómarar á Íslandi hefðu kveðið upp dóma í málum þar sem einhver skyldmenni hefðu haft einhverja hagsmuni gegn ákveðinni niðurstöðu.

Hvað varðar viðbrögð Sverris við ummælum Ólafs Þórs sagði Jón Steinar svo: „Viðbrögð mannsins, þessa meðdómara, við athugasemdum saksóknarans eru ennþá verri því við getum sagt að hann sanni tilvikið … en við vitum ekkert um það hvort þessi afstaða hans til sérstaks saksóknara varð til eftir dóminn og eftir að saksóknarinn hafði haft uppi þessi ummæli um vanhæfi hans.“

Frétt mbl.is: Vissi ekki af tengslum dómara og sakbornings

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, í héraðsdómi.
Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, í héraðsdómi. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert