Hreiðar Már lýsti yfir sakleysi sínu

Hreiðar Már Sigurðsson í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Hreiðar Már Sigurðsson í Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is/Árni Sæberg

Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, lýsti yfir sakleysi sínu þegar þingfesting í svonefndu Chesterfield-máli fór fram fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Hann var einn þriggja sakborninga sem mættu fyrir dómnum í dag og var málinu frestað fram í júlí.

„Háttvirtur dómari. Ég get upplýst dóminn um það að ég starfaði í fimmtán ár hjá Kaupþingi, þar af tíu sem forstjóri eða aðstoðarforstjóri. Ég tók á þessum tíma aldrei ákvörðun gegn hagsmunum Kaupþings. Þessi ákæra er röng og ég er saklaus,“ sagði Hreiðar Már þegar hann var spurður um afstöðu sína til ákærunnar.

Í Chesterfield-málinu er ákært fyrir lán til Chesterfield United Inc., Partridge Management Group S.A. og eignarhaldsfélaga þeirra, samanlagt 510 milljónir evra haustið 2008. Það jafngilti nærri 70 milljörðum króna miðað við gengi evru 7. október 2008. Sérstakur saksóknari telur að féð sé allt tapað Kaupþingi.

Að baki lánveitingunum lágu viðskipti með svonefnd lánshæfistengd skuldabréf eða CLN
(e. Credit Linked Notes) sem tengd voru skuldatryggingarálagi eða CDS (e. Credit
Default Swap) Kaupþings.

Sérstakur saksóknari ákærði vegna lánveitinganna þá Hreiðar Má, Sigurð Einarsson, fyrrverandi stjórnarformann Kaupþings, og Magnús Guðmundsson, forstjóra Kaupþings í Lúxemborg. Hreiðar og Sigurður eru ákærðir fyrir umboðssvik og Magnús fyrir hlutdeild í brotum þeirra tveggja.

Frétt mbl.is: Fjártjónið gríðarlegt og fáheyrt

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert