Spádómsmúsin á Keldum spáir í HM

Það hefur verið vinsælt í að fá hvers kyns kvikindi til að spá fyrir um úrslit í heimsmeistarakeppninni í knattspyrnu. Margir muna eftir kolkrabbanum Paul í Þýskalandi, sem var sannspár um úrslit síðustu keppni. Nú hafa starfsmenn á Keldum fengið hvítu músina HeMma til að spá um HM í Brasilíu.

Sigurður H. Helgason, starfsmaður á Keldum, segir músina, sem fékk nafnið HeMmi í tilefni af HM, hafa spáð rétt fyrir úrslit í sveitstjórnarkosningunum sem fóru fram um daginn og hefur því fulla trú á spádómsgáfu HeMma.

Spádómurinn fór þannig fram að músin var sett ofan í kassa með 32 miðum, einum fyrir hvert land sem tekur þátt í úrslitakeppni HM í Brasilíu.  HeMmi valdi því næst miða með nafni væntanlegs sigurliðs með því að snerta hann. Hér verður ekki upplýst hverju HeMmi spáir, til að komast að því þarf að horfa á meðfylgjandi myndskeið.    

Páll hinn sannspái

Eins og áður sagði komst kolkrabbinn Páll í heimsfréttirnar árið 2008 þegar hann spáði rétt fyrir um úrslit fjögurra af sex leikjum Þýskalands í úrslitakeppni EM í Austurríki og Þýskalandi. Í úrslitakeppni HM árið 2010 bætti hann um betur og spáði rétt fyrir um úrslit allra sjö leikja þýska landsliðsins í Suður-Afríku. Geri aðrir betur.

Eftir að Páll spáði því að þýska liðið myndi tapa fyrir því spænska í fjögurra liða úrslitum keppninnar fékk hann fjölmargar hótanir um að verða eldaður og étinn, sem varð til þess að Jose Zapatero, forsætisráðherra Spánar, bauð kolkrabbanum friðhelgi á Spáni. Ekki kom þó til þess, þar sem Páll kvaddi þennan heim í októbermánuði sama árs.  

Fleiri spádómsdýr kynnt til sögunnar

Nú virðast fleiri en HeMmi ætla sér stóra hluti í spádómum og á meðal þeirra dýra sem munu spá fyrir um úrslit á HM eru fíllinn Citta, kameldýrið Shaheen, þýski fíllinn Nelly og ónefnd panda.

Ólíklegt verður að teljast að HeMma verði hótað því að verða étinn reynist spádómurinn sannur en hann gæti þó öðlast mikla frægð í landinu sem hann spáir sigri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert