Grannskoðuðu skordýr og pöddur

Ánamaðkar og ýmis skordýr voru grannskoðuð af ungum vísindamönnum í Elliðaárdalnum í kvöld, en farinn var rannsóknarleiðangur þangað á vegum Háskóla unga fólksins. 

Sérstakur þemadagur var í Háskóla unga fólksins í dag og vörðu nemendur heilum degi í greinum eins og jarðvísindum, fréttamennsku, tómstunda- og félagsmálafræði, forritun, iðnaðarverkfræði, heilsu- og heilbrigði, forritun og dýralíffræði.

Nemendur í hjólreiðum og vísindum fóur í hjólreiðaferð, ásamt því að fræðast um ýmislegt tengt því undratæki sem reiðhjólið er. Nemendur í dýralíffræði fræddust um hvalahljóð í hvalaskoðunarferð um Faxaflóa og aðrir kynntu sér jökla og áhrif þeirra á umhverfið í ferð í Nauthólsvík.

Ungir nemendur í stjórnmála- og kynjafræði fengu heimsókn frá Samtökunum '78, UN Women, Landvernd og Amnesty International og skoðuðu hvernig hægt sé að nýta félagasamtök enn betur til að breyta samfélaginu til hins betra.

Þeir sem völdu fréttamennsku fengu svo að kynnast því hvernig fréttamenn Rúv setja puttann á púlsinn.

Í kvöld, undir lok þemadagsins, var svo farið í rannsóknarleiðangur í Elliðaárdal þar sem vísindamennirnir ungu skoðuðu skordýr í náttúrulegum heimkynnum sínum, eftir að hafa kynnst þeim við rannsóknir í sjálfum háskólanum. Skordýraskoðunin var farin í samvinnu við Ferðafélag Íslands, í tengslum við verkefnið Með fróðleik í fararnesti, og var öllum opin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert