Reykja og drekka minna en áður

18% ungmenna stunda íþróttir með íþróttafélagi reglulega
18% ungmenna stunda íþróttir með íþróttafélagi reglulega mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Reykvísk ungmenni drekka minna áfengi og reykja síður sígarettur en áður samkvæmt nýrri skýrslu Rannsókna og greiningar sem út kom í gær. Jafnframt eyða ungmennin meiri tíma með foreldrum sínum og þeir vita auk þess frekar hvar börn sín eru stödd um kvöld og helgar.

Skýrslan er unnin úr spurningalistum sem lagðir voru fyrir ungmenni á elsta stigi grunnskóla. Sambærilegar rannsóknir hafa verið gerðar undanfarna áratugi, en líðan ungmenna virðist almennt hafa batnað, vímuefnaneysla minnkað og samverustundir fjölskyldna aukist síðastliðin 15-20 ár ef marka má niðurstöður.

Vímuefnaneysla minnkar gríðarlega

3% reykvískra 10. bekkinga reykja nú daglega, en talan hefur lækkað um eitt prósentustig árlega frá því árið 2010. Hlutfall 10. bekkinga sem reyktu daglega í Reykjavík árið 1997 var 23%.

Sama þróun á sér stað þegar kemur að áfengisneyslu, en á meðan 64% 10. bekkinga höfðu orðið ölvaðir a.m.k. einu sinni um ævina árið 1997 er hlutfallið 15% í dag. Þróunin er eins hjá ungmennum utan Reykjavíkur.

Neysla munntóbaks hefur verið nokkuð í umræðunni undanfarið, en hún hefur minnkað mikið frá árinu 2010. Þá sögðust 12-13% 10. bekkinga hafa notað slíkt tóbak einu sinni eða oftar síðustu 30 daga, en nú aðeins 2-3%.

Foreldrar og börn oftar saman

Samhliða minnkandi vímuefnaneyslu hefur samverustundum ungmenna með foreldrum sínum fjölgað mikið, en um helmingur nemenda í 9. og 10. bekk segist oft eyða tíma með foreldrum sínum utan skóla á virkum dögum, en þar er um að ræða tvöföldun frá 1997. Rétt rúmlega 80% nemenda í Reykjavík og utan hennar segja sömuleiðis að foreldrar sínir viti almennt hvar þeir séu staddir á kvöldin, en árið 2000 var hlutfallið 69% í Reykjavík og 59% utan borgarinnar.

Hlutfall þeirra nemenda í Reykjavík sem telja foreldra sína glíma við fjárhagsvanda er um 18% og er það lækkun um 2% frá árinu 2012, en þó hærra en þau 16% sem mældust 2006. Hlutfall nemenda sem áttu atvinnulaust foreldri eða höfðu séð foreldra sína rífast alvarlega náði hámarki árið 2010, en hefur minnkað umtalsvert í nýju rannsókninni. 27% höfðu orðið vitni að alvarlegu rifrildi 2010, en 20% í ár og þeir sem eiga atvinnulaust foreldri eru nú 14% í stað 20% árið 2010.

Einelti algengara á netinu

Einelti á netinu er nokkuð algengara en líkamlegt ofbeldi og árásir, en einn af hverjum tíu 10. bekkingum í Reykjavík hefur sent andstyggileg eða særandi skilaboð til einhvers á netinu einu sinni til tvisvar á ævinni. 14% nemenda hafa hins vegar fengið slík skilaboð send sjálfir, á meðan 6% hafa orðið fyrir líkamlegu ofbeldi. Þessar tölur eru um einu til tveimur prósentustigum hærri utan Reykjavíkur.

Tölvuleikjaspilun á netinu mælist ekki ýkja mikil en nemendur eyða hins vegar talsverðum tíma á samfélagsmiðlum. Rúmlega 40% 10. bekkinga eyða hálfri til einni klukkustund á sólarhring á samfélagsmiðlum og 35% eyða tveimur til þremur klukkustundum á slíkum miðlum. 18% 9. og 10. bekkinga í Reykjavík stundar hins vegar íþróttir með íþróttafélagi einu sinni til þrisvar í viku.

81% nemenda hamingjusamir

Hvað varðar almenna líðan og sjálfsmynd eru 81% nemenda hamingjusamir og ánægðir með líf sitt. 35% þykja þeir ófríðir eða óaðlaðandi en 64% eru ánægðir með líkama sinn.

Á vef Reykjavíkurborgar kemur fram að árangur ungmenna í borginni síðustu tvo áratugi megi þakka eftirliti, stuðningi og magni tíma sem fag- og forsjáraðilar eyða með ungmennum. Jafnframt sé þátttaka í skipulögðu tómstundastarfi stór áhrifavaldur sem og öflugt forvarnarstarf sem unnið hefur verið undanfarin ár.

Skýrsla Rannsókna og greiningar í heild

Frétt á vef Reykjavíkurborgar

Notkun samfélagsmiðla er mikil meðal ungmenna
Notkun samfélagsmiðla er mikil meðal ungmenna mbl.is/Rósa Braga
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert