Ólöglegt að gefa trúfélögum lóðir

Brynjar Níelsson, alþingismaður.
Brynjar Níelsson, alþingismaður. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Sveitarfélögum er ekki heimilt samkvæmt lögum að gefa trúfélögum lóðir að undanskyldri þjóðkirkjunni. Þetta segir Brynjar Níelsson, hæstaréttarlögmaður og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á vefsíðu sinni. Hann bendir á að samkvæmt lögum um Kristnisjóð nr. 35/1970 sé sveitarfélögum gert að úthluta ókeypis lóðum fyrir kirkjur þjóðkirkjunnar. Hins vegar sé ekkert talað um önnur trúfélög.

Brynjar hafnar því að í þessu felist mismunun trúfélaga og þar með brot á ákvæðum stjórnarskrárinnar enda séu lögbundnar skyldur þjóðkirkjunnar miklu ríkari en annarra trúfélaga. Vísar hann í því sambandi til dóms Hæstaréttar nr. 109/2007 þar sem Ásatrúarfélagið hafi höfðað mál gegn íslenska ríkinu og farið fram á sömu greiðslur úr ríkissjóði og þjóðkirkjan með vísan í jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

„Íslenska ríkið var sýknað þegar af þeirri ástæðu að verkefni og skyldur Ásatrúarfélagsins yrðu ekki borin saman við lögbundin verkefni og skyldur þjóðkirkjunnar og því fælist ekki mismunun í því mati löggjafans að ákveða framlög til þjóðkirkjunnar úr ríkissjóði umfram önnur trúfélög,“ segir Brynjar. Ásatrúarfélagið hafi farið með málið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu sem hafi komist að sömu niðurstöðu.

Brynjar segir að deila megi um það hvort hér á landi eigi að vera þjóðkirkja en það breyti því ekki að sveitarfélögum sé óheimilt að óbreyttri stjórnarskrá og lögum að láta af hendi rakna almannafé til trúfélaga. Þar með talið lóðir. Að sama skapi sé sú hugmynd Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur, oddvita framsóknarmanna í Reykjavík, að láta borgarbúa kjósa um það hvort gefa ætti lóð undir mosku jafn ótæk.

Pistill Brynjars Níelssonar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert